Útskriftarvandi LSH

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 13:55:12 (8107)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Útskriftarvandi LSH.

[13:55]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þetta ástand á Landspítalanum er ekki nýtt. Ár eftir ár hefur verið bent á þennan hóp eldri borgara sem er látinn dúsa á dýru hátæknisjúkrahúsi eftir að meðferð þeirra lýkur. Kjarni þessa máls er sá að það er einfaldlega ekki pólitískur vilji hjá Sjálfstæðisflokknum til að setja málefni eldri borgara í forgang. Til að koma höggi á Reykjavíkurlistann fyrir fjórum árum kaus núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins að koma í veg fyrir löngu tímabæra uppbyggingu í þágu aldraðra í stað þess að styðja hana. Þetta sýnir hug sjálfstæðismanna til aldraðra í hnotskurn og þegar á reynir.

Sjálfstæðismenn hafa haft mörg tækifæri og mörg ár til að bæta stöðu eldri borgara en ekki gert það. Lítum bara á stöðuna. 400 eldri borgarar eru í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum. Hundrað manns liggja á Landspítalanum sem þar eiga ekki heima. Setuverkföll viðgangast á öldrunarheimilum. Lágar tekjur eldri borgara eru skattlagðar í fyrsta skipti. Þriðji hver eldri borgari þarf að lifa á 100 þúsund krónum eða minna á mánuði. Skortur er á búsetuúrræðum fyrir þessa hópa og minni heimahjúkrun er hér á landi en tíðkast á öllum hinum Norðurlöndunum.

Það er síðan ekki trúverðugt þegar þetta fólk í Sjálfstæðisflokknum birtist um land allt korteri fyrir kosningar og segist ætla að bæta stöðu eldri borgara. Eftir áratuga stjórn Sjálfstæðisflokksins liggur eftir sviðin jörð í málefnum eldri borgara og það er ekki rétt að saka Reykjavíkurborg sem hefur lagt til hliðar hundruð millj. kr. til uppbyggingar hjúkrunarrýma en fjármunina og hinn pólitíska vilja hefur skort frá ríkisvaldinu og þar ræður Sjálfstæðisflokkur ríkjum.