Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 20:35:02 (8203)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

734. mál
[20:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er stórbrotinn og uppbyggilegur málflutningur hjá hæstv. fjármálaráðherra. Að þar sem algengasta rekstrarform fyrirtækja sem einkaaðilar reka svona hist og her í atvinnulífinu sé hlutafélag þá sé það ótrúleg þröngsýni að fallast ekki á að Áfengis- og tóbakseinkaverslun ríkisins sé sömuleiðis hlutafélagavædd.

Auðvitað getum við gert þetta yfir alla línuna og sagt: Við hættum að líta á sjúkrahús sem sjúkrahús. Við förum að líta á það sem fyrirtæki. Þar með hlýtur það að þurfa að verða hlutafélag. Við hættum að líta á Hæstarétt sem dómstól. Við förum að líta á hann bara sem fyrirtæki sem dæmir í akkorði. Hann hlýtur að þurfa að verða hlutafélag o.s.frv.

Þetta eru aumkunarverðar röksemdafærslur, herra forseti, sem hæstv. fjármálaráðherra fer hér með. Hverju svaraði nú hæstv. fjármálaráðherra þeirri ábendingu minni að einkaleyfin í áfengisverslunum Norðurlandanna fjögurra væru til staðar vegna þess að þessi starfsemi væri skilgreind sem hluti af aðhaldssamri heilbrigðisstefnu Norðurlandanna? Er það ekki staðreynd? Mótmælir hæstv. fjármálaráðherra því að Norðurlöndin settu fyrirvara inn í EES-samninginn á þessum grunni? Er ekki verið að kippa grundvellinum (Forseti hringir.) undan þeirri röksemdafærslu með því líta núna á þetta (Forseti hringir.) þrennt sem fyrirtæki?