Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar

Fimmtudaginn 04. maí 2006, kl. 14:12:17 (8291)


132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:12]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú tala sem nefnd er í kostnaðaráætlun er áætluð tala um hvað það mundi kosta að kaupa nýjan búnað og reisa þessa starfsemi frá grunni hvað varðar tæki og búnað. Þess vegna ber að taka þessari tölu með miklum fyrirvara. En ég hef gert ráð fyrir því að við munum yfirtaka tæki og búnað núverandi slökkviliðs á vellinum og ekki greiða neitt fyrir það.

Hvað varðar starfsmenn vallarins þá hef ég ekki neinar tölur yfir það hversu margir munu hugsa sér að halda þar áfram eða hversu margir munu vilja fara í önnur störf eða eiga kost á öðrum störfum. Það er eitt af því sem verður að skýrast í framhaldinu. Það sem núna gerist ef þetta frumvarp verður að lögum er að Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli mun fara í að vinna úr þáttum sem þessum. Því til viðbótar er svo samstarfsnefnd ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna og þau verkefni sem er verið að vinna á Suðurnesjum af hálfu heimamanna þar til að auðvelda mönnum að finna ný atvinnutækifæri ef því er að skipta, ef menn þurfa á því að halda. En þetta er eitt af því sem er í vinnslu. Það er hins vegar mjög mikilvægt að óvissunni varðandi þessi mál létti, að allir þeir sem eiga þarna hagsmuna að gæta og stunda þarna vinnu viti af því að það kemur nýr vinnuveitandi. Varnarliðið verður ekki lengur vinnuveitandi heldur Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli og hún mun tryggja að þeir rekstrarþættir haldi áfram sem varnarliðið hefur séð um hingað til, þannig að fyrir notendur vallarins mun þetta vonandi þá engu breyta.