Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar

Fimmtudaginn 04. maí 2006, kl. 15:27:52 (8309)


132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:27]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér verða enn og aftur mikil tíðindi í umræðunni um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Annar hv. þingmaður Framsóknarflokksins kemur hingað í ræðustól og lýsir yfir efasemdum um að rétt sé að fara með flugvöllinn út á Löngusker en bætir um betur og tekur undir með okkur í Frjálslynda flokknum varðandi það að eina raunhæfa framtíðarstaðsetning flugvallarins sé að hafa hann áfram í Vatnsmýri.

Ég hlýt að sjálfsögðu að fagna þessu mjög. Ég hygg að við gerum það öll, sem teljum okkur vera vini Reykjavíkurflugvallar og höfum barist fyrir því og viljum að hann verði áfram þar sem hann er. Það sjá allir réttsýnir menn og konur að það þjónar bæði hagsmunum þjóðarinnar í heild sinni, hagsmunum landsbyggðarinnar og hagsmunum Reykjavíkur að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýri. Ég mundi vilja nota þetta tækifæri hér og nú, virðulegi forseti, til að hvetja fólk til að láta af þessari vitlausu umræðu og taka undir með okkur í Frjálslynda flokknum um að þetta sé eina skynsamlega leiðin að fara inn í framtíðina, þ.e. hafa flugvöllinn áfram þar sem hann er.

Hins vegar vildi ég, virðulegi forseti, spyrja hv. þm. Kristin H. Gunnarsson um hver sé skoðun hans á því að flugvallarstæðið verði flutt út á rauðmagamiðin í Skerjafirði, hvort hann telji það tæknilega mögulegt og hvort hann sé sammála því helsta stefnumáli exbé-framboðsins í Reykjavík að ná megi þjóðarsátt um málið með því að Reykjavíkurflugvöllur verði í framtíðinni settur niður á Lönguskerjum.