Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar

Fimmtudaginn 04. maí 2006, kl. 15:52:41 (8317)


132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:52]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þær umræður sem hér hafa átt sér stað og endurtaka þakkir mínar til þeirra sem greitt hafa fyrir því að þetta mál komst á dagskrá þessa fundar í dag og náðst hefur samkomulag um að reyna að afgreiða málið í dag. Hér hafa auðvitað vaknað ýmsar spurningar og sumar þess eðlis að ég mun leiða þær hjá mér en öðrum mun ég reyna eftir föngum að svara.

Ég vil í upphafi máls mín fara aðeins yfir þetta mál aftur á svolítið almennum nótum. Frumvarpið sem hér hefur verið lagt fram er frumvarp um lágmarksráðstafanir sem þarf að gera til að tryggja flughæfni flugvallarins í Keflavík og starfsöryggi þeirra sem þar vinna við þau störf sem um er að tefla en ganga jafnframt úr skugga um að ekki skapist neitt ófremdarástand við það að einn rekstraraðili tekur við af öðrum varðandi ýmsa rekstrarþætti. Auðvitað hefði verið hægt að stíga stærra skref og gera þetta allt öðruvísi en meðan sú óvissa ríkir sem enn er við lýði varðandi samninga við Bandaríkjamenn töldum við heppilegast í ríkisstjórninni að stíga aðeins lágmarksskref. Eins og ég sagði fyrr í umræðunni útilokar þessi breyting ekki aðrar breytingar síðar meir hvað varðar rekstrarfyrirkomulag á vellinum. Þá koma til skoðunar í fyrsta lagi spurningar um hvar vista eigi þetta mál. Eins og ég sagði fyrr í dag og aðrir hafa tekið undir tel ég að þetta samgöngumannvirki eigi þegar til framtíðar horfir að heyra undir samgönguráðherra. Síðan er það annað mál með hvaða hætti tengt verður á milli starfseminnar á þessum flugvelli, sem vissulega hefur mikla sérstöðu, og annarrar flugvallarstarfsemi í landinu og yfirstjórnar Flugmálastjórnar Íslands. Ekki er tekin afstaða til þess í þessu frumvarpi.

Þeirri spurningu er haldið opinni hvort einhvern tíma seinna eigi að flytja stjórnina á öllum flugvöllum í landinu undir einn hatt. Kannski er það rétt, ég ef ekki myndað mér skoðun á því. En ég hef myndað mér þá skoðun, og fylgi því máli hér eftir, að til þess að snurðulaus yfirfærsla geti átt sér stað á næstu vikum og mánuðum varðandi núverandi rekstur á vellinum sé best að gera það með þeim hætti sem hér er lagt til og með því sé líka er best komið til móts við hagsmuni og sjónarmið starfsmanna sem þarna eiga hlut að máli. Frumvarpið er því ekki síst flutt núna til að eyða þeirri óvissu sem margir þingmenn hafa gert að umtalsefni og snertir fyrst og fremst þá starfsmenn sem unnið hafa hjá varnarliðinu við þá rekstrarþætti sem vikið er að í þessu máli.

Í framhaldinu geta menn svo velt því fyrir sér hvernig þeir vilja hafa þetta að formi til. Eitt er hvar menn vista málin, annað er hvaða form á að vera utan um reksturinn. Víða í nálægum löndum eru rekin hlutafélög um flugvelli og þykir ekkert athugavert við það. Í nálægum löndum reka ríkisstjórnirnar eða ríkisvaldið flugvelli sína í formi hlutafélaga. Það er bara spurning um form á rekstri og ætti auðvitað ekki að hafa neitt sérstakt með pólitík að gera heldur hvaða rekstrarform hentar best hverju sinni. Þannig er þetta t.d. gert í Noregi. Þar er hlutafélag um flugvellina og svo er annað sérstakt hlutafélag um stóra flugvöllinn þeirra, Gardermoen, sem er í eigu hins hlutafélagsins, ef ég skil það rétt. En þetta er önnur saga, þetta er mál sem menn geta rifist um í sölum þingsins við annað tækifæri ef um það er að tefla. Flugbrautirnar í Keflavík eru hins vegar ekki í eigu íslenska ríkisins, a.m.k. ekki enn sem komið er og ekki alfarið, heldur kemur þar líka til skjalanna Mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins. Við höfum lagt miklar upphæðir í það mál og auðvitað þarf að greiða úr öllu slíku. Þess vegna hef ég aldrei haldið því fram, eins og einn þingmaður lét getið hér áðan, að það ætti að einkavæða flugbrautirnar eða þau mannvirki. En nóg um þetta. Þetta er ekki það mál sem raunverulega þarf að afgreiða núna.

Hins vegar vildi ég láta þess getið í þessu sambandi, og taka undir með þeim sem það hafa sagt, að það er mikil nauðsyn á að reksturinn í heild á Keflavíkurflugvelli geti verið sjálfbær. Þá erum við auðvitað að tala um hlutafélagið sem rekur flugstöðina, sem er í rauninni fasteignafélag með verslunarrekstur en skilar hins vegar dágóðum tekjum og sá rekstur hefur gengið mjög vel eftir að hlutafélagið var stofnað árið 2000. Það er einn aðili að þessu máli. Ég held að við verðum að horfa á þennan rekstur í heild sinni, annars vegar stjórnsýsluna og flugvallarreksturinn sjálfan sem snertir brautirnar og þá þætti og hins vegar það sem kallað er óflugtengd, það er nú til eitthvað voða fínt orð yfir það, starfsemi á öllum flugvöllum sem eru þá fasteignirnar, verslunarreksturinn og þær tekjur sem þar skapast. Í heild sinni er eðlilegt að ætlast til þess að þetta sé sjálfbært, standi undir sér og ef vel gengur skili jafnvel einhverjum tekjum í ríkissjóð. Enn og aftur þá er þetta ekki mál dagsins varðandi þetta frumvarp en mér finnst ánægjulegt að þingmenn séu sammála mér hvað þetta varðar. Þetta gæti hins vegar þýtt að ríkissjóður hefði á næstunni minni tekjur af þessari flugvallarstarfsemi og flugstöðinni en hann hefur í dag vegna þess viðbótarkostnaðar sem hér er að falla til og íslenska ríkið mun þurfa að standa undir.

Varðandi gjöldin sem hér hafa verið nefnd og getið er um í þessu frumvarpi, þá eru þrenns konar gjöld lögð á þessa starfsemi, lendingargjöld, öryggisgjald og flugvallarskattur. Það síðastnefnda, flugvallarskatturinn, rennur inn í flugmálaáætlunina og dreifist þar af leiðandi á fleiri verkefni en einungis Keflavíkurflugvöll en hér er gert ráð fyrir að staðfesta með lögum það sem tíðkast hefur, að lendingargjöldin og flugöryggisgjaldið, vegna vopna- og öryggisleitar, renni til flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Það er í raun og veru ekki neitt nýtt í því efni.

Við gerum okkur vonir um að þetta frumvarp muni skapa vissa festu í því sem fram undan er á Keflavíkurflugvelli og á grundvelli þess verði hægt að leysa vandamál þeirra starfsmanna sem að undanförnu hafa verið í óvissu með sín mál. Enda stendur í frumvarpinu að eftir því sem við verði komist skuli veita starfsmönnum í tilteknum deildum sem starfað hafa hjá varnarliðinu tiltekinn forgang að störfum. Ég tel að ekki sé hægt að ganga lengra hvað þetta varðar og það sé óhjákvæmilegt að flugvallarstjórinn, sem mun annast þetta verkefni, hafi visst svigrúm í því vegna þess að það kann að þurfa að endurskipuleggja þessi mál, gera þetta með öðrum hætti en varnarliðið hefur gert. Þar að auki er vitað að einhverjir starfsmenn munu vilja skipta um störf og hafa jafnvel þegar ákveðið að gera það en tilgangur frumvarpsins er náttúrlega að tryggja rekstrarhæfni vallarins jafnhliða starfsöryggi þeirra starfsmanna sem þarna eiga hlut að máli. Þess vegna er brýnt og nauðsynlegt að víkja frá auglýsingaskyldunni sem önnur ákvæði laga hefðu ella kveðið á um.

Ég vil bæta því við út af spurningum hv. þm. Jóns Gunnarssonar varðandi reglugerð um starfsemi og skipulag flugmálastjórnarinnar að þetta er hefðbundið ákvæði sem eðlilegt er að setja um starfsemi sem þessa. Þessi flugmálastjórn hefur frá 1964 eingöngu starfað á grundvelli reglugerða sem er mjög óvenjulegt um stofnanir ríkisins nú til dags. Við snúum þessu við núna og setjum lög um starfsemina og setjum síðan reglugerð til að fylla út í löggjöfina.