Störf iðnaðarnefndar

Þriðjudaginn 30. maí 2006, kl. 13:56:24 (8357)


132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar.

[13:56]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Á hvaða leið skyldi sú ríkisstjórn vera sem telur það nauðsynlegast að koma vitlausasta málinu í gegn sem hefur verið lagt fyrir þingið á þessum þingvetri? Til hvers er það gert? Er það til að bjarga heiðri hæstv. ráðherra sem í þriðja sinn hefði þá orðið að súpa það kálið á þessum eina þingvetri að hafa komið með mál sem hefur þurft að gjörbreyta eða taka að verulegu leyti tillit til gagnrýni stjórnarandstöðunnar? Það skyldi þó ekki vera? En ósköp er það nú dapurlegt ef það á að koma niður á vinnubrögðum í þinginu.

Það er alveg rétt sem hv. formaður nefndarinnar sagði, það kom fjöldi manna fyrir þingnefndina. En þeir höfðu allir sömu söguna að segja, að þetta þingmál væri með endemum. Hvernig varð það til? Það varð til á þann hátt að hæstv. ráðherra lét klambra byggðamálunum við annað þingmál sem búið var að vinna. Þess vegna hafa allir sömu athugasemdirnar við málið: Takið klambrið í burtu. En það er ekki gert heldur er komið með einhver fáein viðbótaratriði sem skipta litlu máli.

Síðan svelgir Sjálfstæðisflokkurinn það í sig að málið skuli tekið úr nefndinni. Og svo er stóra spurningin: Fer það í gegn? Eru atkvæðavélarnar tilbúnar að rétta líka upp höndina hér? Það var auðvitað stórkostlegt að sjá það á þessum síðasta fundi nefndarinnar í gær að það skyldi fyrst sagt við okkur: Málið verður tekið út. Síðan voru breytingartillögurnar lagðar fyrir hópinn. Og að halda því svo fram að við höfum fengið tækifæri til að fjalla um málið þar sem yfirlýsingin lá fyrir um að það skyldi tekið út og okkur fært það til hnjóðs að við hefðum ekki viljað spjalla við fulltrúa úr iðnaðarráðuneytinu á þessum eina fundi um málið, (Forseti hringir.) það finnst mér ekki mjög málefnalegt (Forseti hringir.) því að fyrir lá að málið skyldi tekið út (Forseti hringir.) með því fólki sem sat þennan fund þó að það hafi lítið gert af því að sitja fundi iðnaðarnefndar í vetur.