Ríkisútvarpið hf.

Þriðjudaginn 30. maí 2006, kl. 15:39:25 (8384)


132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:39]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég mun auðvitað koma frekar að þessum spurningum og þá svörum hv. formanns nefndarinnar í máli mínu hér í ræðu á eftir. En hann ítrekar það sem hann hefur sagt að tilgangur þessara breytinga hafi verið að koma til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar. Jafnframt sagði hann í ræðu sinni að tilgangurinn væri að hluta til sá að meiri friður mætti ríkja um málið.

Ég vil nú segja við hv. þingmann að það er ekkert tryggt í þeim efnum því enn er grundvallaratriði andstöðunnar við málið óbreytt, þ.e. hlutafélagavæðingin sjálf og þar af leiðandi möguleg sala Ríkisútvarpsins að hluta eða að öllu leyti í fyllingu tímans.

Af því að hv. þingmaður segir hér í andsvari við mig að þessar breytingartillögur varðandi upplýsingalögin hafi verið gerðar til að koma til móts við stjórnarandstöðuna, en hann sé í prinsippinu enn þeirrar skoðunar að það sama eigi að gilda um þetta hlutafélag og önnur hlutafélög í eigu ríkisins, þá vil ég spyrja hann hvort hann sé enn í prinsippinu sammála því máli sem hann sjálfur flutti hér fyrir ríflega einu og hálfu ári, (Forseti hringir.) að það eigi að selja Ríkisútvarpið. (Forseti hringir.)