Nýtanlegt vatnsafl og æskileg álframleiðsla

Miðvikudaginn 31. maí 2006, kl. 15:57:34 (8455)


132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

nýtanlegt vatnsafl og æskileg álframleiðsla.

773. mál
[15:57]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Eitt er víst að ég er ekki á neinum flótta og hv. þingmaður hlýtur að gleðjast yfir því að ég tel að þegar við erum komin í milljón tonn þá eigi að fara að spyrna við fótum. Er ekki hv. þingmaður ánægður með slíkar yfirlýsingar? Þetta hef ég sagt og þetta stend ég við. En það er hins vegar óskaplega erfitt að eiga við Samfylkinguna í þessari umræðu allri vegna þess að hún ber kápuna á báðum öxlum. Samfylkingin hefði getað komið í veg fyrir að allt það sem nú er til umfjöllunar í sambandi við stóriðjuframkvæmdir væri á döfinni vegna þess að Samfylkingin er ekki bara á Alþingi. Samfylkingin á fulltrúa í sveitarstjórnum. Í Hafnarfirði er Samfylkingin með hreinan meiri hluta og það vill svo til að stækkun álversins í Straumsvík verður ekki framkvæmd nema það verði samþykkt af hálfu samfylkingarmanna í Hafnarfirði. Þeir hefðu getað komið í veg fyrir að þetta færi yfirleitt af stað. Það er búið að selja land. Þar að auki á Hafnarfjarðarbær það land þar sem mestar líkur eru á að virkjað verði vegna Helguvíkur. Samfylkingin í Hafnarfirði getur stoppað það ef hún einu sinni vill. Samfylkingin er í þeim meiri hluta sem enn er starfandi á Húsavík, ef hún hefur ekki hrökklast frá nú þegar. Þar væri ekkert um að vera ef Samfylkingin vildi það ekki. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt, hæstv. forseti, að vera með eina skoðun á Alþingi og aðra skoðun í sveitarstjórnum. Það er hlægilegt að koma svona fram, finnst mér.

Síðan er það hver stefnan er. Nú er nefnd að störfum sem er skipuð fulltrúum allra þingflokka. Hún á m.a. að marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til, þ.e. auðlindalögin. Ég trúi því að á þessu ári getum við áttað okkur betur á því hvernig framtíðin lítur út í þessum efnum, að minnsta kosti hvað það varðar hvernig valið er á milli orkufyrirtækja sem sækjast eftir sömu virkjunarkostunum.