Afnám verðtryggingar lána

Miðvikudaginn 31. maí 2006, kl. 18:01:31 (8456)


132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

afnám verðtryggingar lána.

755. mál
[18:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Töluverðar umræður hafa verið um afnám verðtryggingar síðustu missirin hér á landi. Verðtryggingarkerfið var sett á á sínum tíma til að draga úr óstöðugleika í efnahagsmálum en núna eru uppi vangaveltur um hvort verðtryggingin gæti verið ein af orsökum óstöðugleikans þar sem hún dregur úr áhrifum stýrivaxta Seðlabankans.

Efnahagslegar aðstæður á Íslandi hafa breyst mikið frá því að verðtryggingarkerfinu var komið á. Fjármálamarkaðurinn hefur breyst, frjálsræði hefur aukist, þjóðfélagið er opnara og alþjóðavæðing er vaxandi.

Bankastjóra greinir á um hvort afnema eigi verðtryggingu lána. Hæstv. forsætisráðherra hefur lýst þeirri skoðun sinni að stefna beri að afnámi verðtryggingar. Hæstv. viðskiptaráðherra sagði í umræðum í þinginu 4. mars 2004 um verðtrygginguna, með leyfi forseta:

„Það er rétt sem hér kom fram að verðtryggingin er mjög sérstök. Hún er í raun íslenskt fyrirbæri og að því leyti til er hún óæskileg að það er erfitt að útskýra þetta fyrir öðrum þjóðum. Kannski er það ekkert svo oft sem þarf á því að halda. Engu að síður er verra að vera með eitthvert fyrirkomulag hér, miðað við það að við erum á þessum opna markaði Evrópu, sem aðrar þjóðir átta sig ekki á hvað er.“

Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort verðtryggingin sé í raun séríslenskt fyrirbrigði og hversu mörg lönd önnur hafi þetta fyrirkomulag. Sagt er að þau séu fá en hvers vegna? Hvers vegna erum við með þetta séríslenska fyrirbrigði verðtryggingu?

Frú forseti. Við þurfum að taka upp umræður um afnám verðtryggingar og því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra:

1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að afnema verðtryggingu lána?

2. Hvaða kosti og galla telur ráðherra að verðtrygging lána hafi fyrir almenna lántakendur?

3. Hvaða kosti og galla telur ráðherra að afnám verðtryggingar lána gæti haft fyrir almenna lántakendur?