Afnám verðtryggingar lána

Miðvikudaginn 31. maí 2006, kl. 18:04:01 (8457)


132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

afnám verðtryggingar lána.

755. mál
[18:04]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Eins og önnur málefni á fjármagnsmarkaði hljóta vextir og verðtrygging ætíð að vera til stöðugrar athugunar. Það sem kann að vera heppilegt á einum tíma þarf ekki að vera það á öðrum. Svo kann einnig að vera um þessi atriði.

Til þess að unnt sé að taka upplýsta ákvörðun um hvort rétt sé að ráðast í breytingar á núverandi lögum og reglum um vexti og verðtryggingu hef ég skipað nefnd sem falið var að skoða kosti og galla verðtryggingar lánssamninga og meta áhrif þess á innlent fjármálakerfi væri heimild til verðtryggingar afnumin eða settar frekari skorður en þegar er að finna í VI. kafla laga nr. 31/2001. Þegar niðurstöður nefndarinnar liggja fyrir mun ég fara yfir málið og meta hvort skynsamlegt sé að leggja til að gerðar verði breytingar á framangreindum lögum.

Reynslan sýnir að kostir verðtryggðra lána fyrir almenna lántakendur eru einkum þeir að raunvextir slíkra lána eru lægri en raunvextir óverðtryggðra. Er talið að þar muni um 2–3%. Þá má gera ráð fyrir að greiðslubyrði slíkra lána sé jafnari á lánstímanum. Þó svo að hagsmunir lántakenda skipti vissulega miklu máli megum við ekki gleyma hagsmunum eigenda þeirra fjármuna sem standa að baki útlánum. Í því sambandi vil ég vekja sérstaka athygli á því að verðtryggð útlán eru örugg leið til að ávaxta lífeyrissparnað launafólks og tryggja því áhyggjulausara ævikvöld.

Þótt lægri raunvextir verðtryggðra lána vegi ákaflega þungt í huga mínum, þegar bornir eru saman kostir og gallar verðtryggingar, er aldrei svo að ekki megi benda á kosti óverðtryggðra lána fyrir einstaka lántakendur. Má hér nefna að höfuðstóll óverðtryggðra lána hækkar ekki þótt komi til aukinnar þenslu og verðbólguskots. Vel má hugsa sér að einstaka lántakendur sjái sér frekar hag í hækkun vaxta og aukinni greiðslubyrði afborgana og vaxta sem af slíku leiðir en því að verðtryggður hluti höfuðstóls leggist við höfuðstól og dreifist á eftirstöðvar lánstímans.

Ekki verður sagt að auðvelt sé að koma auga á augljósa kosti afnáms verðtryggðra lána fyrir almenna lántakendur þótt tekið væri dæmi hér að ofan um að einstaka lántakendur kunni að vera í þeirri aðstöðu að þeim væri hagstæðara að greiða hærri raunvexti sem kæmu til sífelldrar endurskoðunar við breytingar á verðlagsþróun. Er væntanlega svo um langflesta lántakendur að þeir hafi miðað áætlun sína frekar við festu hvað varðar greiðslubyrði lána en sveiflur.

Öðru máli gegnir um galla afnáms verðtryggingar. Fyrir það fyrsta má gera ráð fyrir mun hærri raunvöxtum ef verðtrygging væri ekki til staðar. Í öðru lagi mætti að öllu jöfnu gera ráð fyrir að lánveitendur yrðu tregari til að veita lán til jafnlangs tíma og nú er. Í þriðja lagi mætti gera ráð fyrir að vextir yrðu mjög sveiflukenndir. Loks vil ég nefna að hagsmunum lífeyrissjóða til að tryggja félagsmönnum sínum áhyggjulaust ævikvöld kynnu að verða settar verulegar skorður.

Þrátt fyrir allt framansagt og einkum vegna þess að verðtrygging hér á landi hefur verið töluvert til umræðu að undanförnu er rétt að benda á að um árabil hafa lántakendum staðið til boða ýmsir valkostir þegar lán hafa verið tekin. Þannig hefur einn af stóru viðskiptabönkunum boðið óverðtryggð lán í íslenskum krónum til allt að 40 ára.

Þá hafa gengistryggð lán af ýmsu tagi lengi tíðkast. Má jafnvel gera því skóna að afnám verðtryggingar kynni að leiða til þess að lán til almennra lántakenda yrðu almennt gengistryggð. Þá kann að vera vafasamt að binda hendur lántakenda og lánveitenda með valdboði umfram það sem þegar er gert en gildandi lög heimila verðtryggingu lánssamninga en gera hana ekki að skyldu. Frjálsir samningar á milli aðila eru að mínu mati heppilegasta leiðin til að tryggja hag bæði lántakenda og lánveitenda.