Öryggisgæsla við erlend kaupskip

Miðvikudaginn 31. maí 2006, kl. 18:15:35 (8462)


132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

öryggisgæsla við erlend kaupskip.

802. mál
[18:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem til að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um öryggisgæslu við erlend kaupskip. Þannig er málum háttað að fyrir um það bil þremur árum voru settar upp öryggisgirðingar við hafnir, hlið, gæsluskúrar og annað, og umferð sem fór þar í gegn þurfti að fara í gegnum ákveðna gæslu ef svo má segja. Reglurnar sem voru settar voru nokkuð ítarlegar og mörgum þóttu þær strangar, til að mynda voru allar komur skráðar. Menn þurfa að sýna vegabréf eða ökuskírteini til að sanna hverjir þeir eru. Það þarf að skrá þessar upplýsingar á þar til gerð eyðublöð og annað þar fram eftir götunum. Mörgum þótti þetta frekar nýstárlegt þegar þetta var sett á en maður hefur ekki heyrt annað en þetta hafi gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig. Hins vegar hafa mér borist fregnir um að breytingar hafi orðið á þessu fyrirkomulagi í Reykjavíkurhöfn, þ.e. við Korngarð, Vogabakka, Ártúnshöfða og Vesturhöfn í Reykjavík og þess vegna langar mig til að bera fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Hvernig er öryggisgæslu háttað við erlend kaupskip sem liggja við Korngarð, Vogabakka, Ártúnshöfða og Vesturhöfn í Reykjavík?

2. Hafa orðið breytingar á tilhögun og framkvæmd öryggisgæslu á þessum stöðum á undanförnum mánuðum og ef svo er, hvaða breytingar hafa verið gerðar?