Viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir

Fimmtudaginn 01. júní 2006, kl. 10:39:00 (8470)


132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:39]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér finnst einboðið að Alþingi komi beint að þessu máli. Brot á þinghelgi er mjög alvarlegur hlutur og það hlýtur að vera eðlilegt að þingflokkarnir komi að þessu frá upphafi, skoðun þess og yfirferð. Ég tel að þingflokkarnir eigi að hafa fulltrúa við að skoða þessi mál. Ég geri ekki lítið úr þeirri tillögu sem hæstv. forsætisráðherra hefur lagt fram og tel að þar sé um valinkunna menn að ræða. En ég tel að það sé einboðið að þingmenn fyrir hönd þingflokka komi að þessu máli og fylgi því eftir frá upphafi.

Auðvitað hljótum við að skoða þetta mál sérstaklega með tilliti til þess að slíkir hlutir, sem upplýstir hafa verið, gerist aldrei aftur. Við munum að sjálfsögðu ekki fara í þann leik með slíkt mál að ástæða sé til að fara að hengja menn úr fortíðinni ef þannig má taka til orða. En fyrir framtíðina er nauðsynlegt að þingflokkar á Alþingi komi beint að þessum málum.