Landshlutaverkefni í skógrækt

Fimmtudaginn 01. júní 2006, kl. 15:19:45 (8535)


132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[15:19]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki oft sem við í stjórnarandstöðu getum þakkað stjórnarliðinu fyrir vel unnin störf í nefndum en ég held að full þörf sé á því nú að þakka sérstaklega fyrir vel unnin störf í landbúnaðarnefnd varðandi þetta mál sem er mjög stórt mál og þarft. Það væri auðvitað hægt að fara mörgum orðum um hversu gífurlega mikilvæg þessi verkefni eru vítt og breitt um landið en ég ætla að láta duga að þessu sinni að fjalla um einn þátt þeirra sem ég gerði að umræðuefni í andsvari við hæstv. landbúnaðarráðherra þegar mælt var fyrir málinu í upphafi, þ.e. það sem var í frumvarpinu, og eru Héraðsskógar á Austurlandi sem áttu að ná yfir þetta verkefni í heild sinni á Austurlandi. Þá benti ég á að það væri auðvitað ekki nægjanlegt, það væri ekki nógu lýsandi fyrir verkefnið í heild sinni því það næði auðvitað til miklu stærra svæðis en Héraðs eingöngu.

Hæstv. ráðherra var ekki með jákvæðar undirtektir við þessa athugasemd þannig að ég átti svo sem ekki von á að þetta næði fram að ganga. En ég sé að nefndin hefur tekið þetta mál fyrir og komist að sömu niðurstöðu og ég að það væri miklu eðlilegra að kalla þetta Héraðs- og Austurlandsskóga. Fyrir það er ég afar þakklátur og segi aftur að það er ekki oft sem við í stjórnarandstöðu getum hælt stjórnarliðum fyrir að hafa kjark og þor til að fara með tillögu í gegn sem er ekki endilega í samræmi við vilja hæstv. ráðherra. En það er gert í þetta skipti og ég þakka fyrir það og óska í raun stjórnarliðum í landbúnaðarnefnd til hamingju með að gera slíkt vegna þess að ég er alveg fyllilega sammála nefndinni um að þetta heiti er miklu heppilegra en það sem var í frumvarpinu.