Réttarstaða samkynhneigðra

Fimmtudaginn 01. júní 2006, kl. 15:49:02 (8545)


132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[15:49]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur mælt fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvganir).

Þetta er gríðarlega stór stund í þinginu og líka stór stund fyrir þjóðina því þetta er eitt af þeim málum sem þing og þjóð eru sammála um að leiðrétta þurfi. Það er gert með þessu frumvarpi og þessum miklu breytingum á hinum ýmsu lögum.

Segja má að nú hilli kannski undir lok göngunnar löngu fyrir mannréttindum og réttarstöðu samkynhneigðra. Sú ganga hófst 1992 á hinu háa Alþingi þegar samþykkt var þingsályktunartillaga sem markaði þetta upphaf og leiddi til lagasetningar um staðfesta samvist 1996, en 1. flutningsmaður þessarar fyrstu þingsályktunartillögu var hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þetta hefur því tekið 14 ár sem er í rauninni kannski minni tími en margan grunaði.

Vinnan í nefndinni og vinnan að þessu máli hefur verið mjög frjó, skemmtileg og málefnaleg. Eins og hv. formaður nefndarinnar nefndi áðan erum við búin að eiga samræður við marga aðila og halda marga fundi. Allir stjórnmálaflokkar á þinginu eru sammála um þetta mál og þær réttarbætur sem hér eru lagðar til. Að vísu stendur eitt mál út af. Það hefur líka orðið samstaða um að það yrði ekki gert að hinu stóra máli núna heldur yrði fyrst og fremst horft á þau réttindi sem eru að fást fram nú og loka þeim hring. Það mál varðar afstöðu kirkjunnar til þess að staðfesta samvist, (Gripið fram í: … trúfélaga.) trúfélaga og líka þjóðkirkjunnar. Það er mál sem flestir hér inni hafa trú á að muni koma og er spurning hvort ekki verði bara beðið um það af kirkjunnar hálfu næsta haust. Ég yrði ekki hissa á því. Það hillir kannski líka undir lok þess máls því að með þessu máli er þó búið að snúa því skipi.

Ég veit að margir hefðu viljað meiri umræðu í fjölmiðlum um einmitt öll þau miklu réttindi sem í þessu máli felast því að þau eru gríðarlega mikil. Nú er loksins verið að jafna stöðu gagnkynhneigðra og samkynhneigðra og ef væri hægt að líkja þessari stóru stund við eitthvað í sögu okkar á þingi væru það e.t.v. réttindi kvenna. Það er kannski sú beina tenging sem maður augljóslega sér.

Öll slík mál eiga sér auðvitað frekar langan aðdraganda. Ég bað á sínum tíma um skýrslu um stöðu sambúðarfólks vegna þess að ég vissi að í gegnum hana sæjum við réttleysi samkynhneigðra. Sú skýrsla var gríðarlega vel unnin. Hún var unnin af lögfræðingi fyrir dómsmálaráðuneytið og er í dag lögskýringargagn í námi í lögfræði. Þar kom auðvitað í ljós að staða samkynhneigðra var afleit í raun, miklu verri en við héldum. Við héldum að ástandið væri miklu betra og fegurra.

Í framhaldi af því var skipuð nefnd sem hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, studdi af heilum hug að yrði gert. Fór nefndin yfir öll þessi mál og niðurstaðan var í rauninni þær lagabreytingar sem við erum að samþykkja hér. Það er því alltaf miklu meiri vinna að baki en fólk heldur, og kannski ósýnileg, þegar verið er að fjalla um svona stór mál.

En af því við erum búin að gera ákveðið samkomulag í þinginu um málið þá er þetta fyrst og fremst tilefni til að fagna, fagna því að það er enginn munur á okkur og hinum eins og sagt er, að við höfum sama rétt. Og það sem líka er ánægjulegt fyrir okkur er að við erum í fyrsta til fimmta sæti hvað varðar réttarstöðu samkynhneigðra í heiminum. Það er gríðarlega mikilvægt því það er mjög horft til Norðurlandanna, Hollands og Belgíu varðandi þessi mál. Það er því verið að brjóta í blað og það er verið að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra.

Við gerðum ákveðnar breytingartillögur í nefndinni og ekki síst með tilliti til þess að tryggja réttindi og stöðu barna. Það á auðvitað við varðandi tæknifrjóvgunina og var mikil samstaða um það í nefndinni hvernig við lentum því máli. Það vita allir sem hér eru og hafa fylgst með þessum málum að þetta er einhver stærsti sigur þessa hóps í mörg ár og tók í rauninni styttri tíma en við héldum.

Það sem er líka ánægjulegt við breytingartillögu nefndarinnar er að lögin taka gildi á alþjóðadegi samkynhneigðra, 27. júní. Það sama var gert varðandi staðfesta samvist. Það skiptir máli að í svo stórum og miklum breytingum eins og hér er verið að gera, bæði varðandi Hagstofu og þjóðskrá, skráningu í fæðingarskýrslur o.s.frv., að allir aðilar fái ráðrúm þannig að þegar lögin taka gildi séu öll kerfi tilbúin. Það skiptir mjög miklu máli að þar gangi allt snurðulaust fyrir sig, hvort heldur um er að ræða að ganga frá ættleiðingu barna erlendis frá, sem er auðvitað líka í þessu frumvarpi, eða konur sem vilja fara í tæknifrjóvgun hér á landi o.s.frv. Mér fannst það í rauninni auka á jákvæða og góða ásýnd þessa máls að sá dagur var valinn.

Ég þarf ekki að segja meira því hér er bara tilefni til að fagna. Ég vil, af því að ég er búin að vera í þessu máli alveg frá upphafi, þakka öllum sem ég hef unnið með að því fyrir einstaklega skemmtilegt samstarf. Nefndasvið Alþingis hefur unnið mikið að málinu. Einnig hefur verið unnið með Stjórnarráðinu og ráðuneytum að þessum bandormi og þessu stóra frumvarpi. Þetta er búið að vera einstaklega ánægjulegt og ég held að þingmenn geti afskaplega vel við unað að þetta mál sé á dagskrá og verði fullklárað á morgun.