Tóbaksvarnir

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 16:51:59 (8621)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[16:51]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég lýsi fullri samúð með sjónarmiðum hv. þingmanns í þessu efni en það er skoðun mín að ekki sé til neitt almennilegt millistig hér. Ég hef leitað þess eins og ég lýsti áðan og ég hef ekki trú á tillögu þeirra félaga sem ég þó skil hvatir á bak við og ætla ekki að fara að úthrópa þá hér sem einhverja eyðileggingarmenn eða fíknisinna. Ég hef ósköp einfaldlega ekki trú á að það gangi að hafa svona tvöfalt kerfi í þessum efnum og ég held að það sama verði að ganga yfir alla í þessu.

Að hluta til eru Íslendingar komnir inn á þessa braut. Það er mjög algengt núna að menn hverfi sjálfkvaddir frá borðum, t.d. í veislum eða í mat og jafnvel á reykingasvæði, vegna þess að menn eru farnir að taka tillit til annarra í þeim efnum og telja það ekki viðkunnanlegt, jafnvel ekki í heimahúsum, að reykja við matborð. Við erum óvanari þessu á drykkjustöðum eða börum og þess vegna var ég að hugleiða það á sínum tíma hvort hægt væri að aðgreina þetta tvennt. Ég held að það verði eitt yfir alla að ganga í þessu og við verðum að reyna að stíga þetta skref öll í einu. Ég vona að það takist farsællega.