Tóbaksvarnir

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 17:03:55 (8624)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[17:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sannfærðist ekki vitund við þessa ræðu hv. þingmanns, hún breytti engu. Það kann vel að vera að tillögumenn hugsi sér þetta þannig og í þeirra heimi, besta heimi allra heima gæti með fullkominni framkvæmd þetta orðið skárra en núverandi ástand. En við vitum bara hvernig hefur gengið að framkvæma gildandi lög og er einhver ástæða til að ætla að það gengi miklu betur að framkvæma þessa hugmynd? Það yrðu áfram mjög túlkanleg og grá svæði og hv. þingmenn bjóða meira að segja upp á það með ákveðnu loðnu orðalagi. Þetta er frekar óvenjulegur lagatexti, verður að segja, þó að löglærðir menn komi að því að semja þetta í hópi flutningsmanna. Eru þeir ekki allir löglærðir nema einn?

Það segir hér:

„Þessi rými skulu aðgreind frá öðru rými staðanna með þeim hætti að loftstreymi á milli sé í lágmarki,“ — það má þó vera eitthvað — „t.d. með veggjum eða gleri.“

Þetta er nú býsna fljótandi. Hvað segir júristinn, hv. þingmaður, um þetta? Þetta er nú ekki alveg afdráttarlaust. Svo eru vinnuverndarsjónarmiðin eftir í þessu máli þó svo að þetta gengi alveg fullkomlega í framkvæmd, sem ég hef enga trú á að mundi gera. Þetta yrði því áfram loðið og grátt og ekkert sem segir því miður að framkvæmdin gæti ekki orðið á þann veg að sáralítil breyting yrði frá núverandi ástandi, jafnlítil breyting og því miður varð með lögunum 2002 sem áttu að breyta heilmiklu en í reynd hafa gert sáralítið gagn.