Meiðyrðalöggjöf og Lugano-samningurinn

Mánudaginn 10. október 2005, kl. 15:58:27 (242)


132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Meiðyrðalöggjöf og Lugano-samningurinn.

[15:58]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég hef ekki velt fyrir mér að taka meiðyrðalöggjöfina upp í tilefni af þessu máli. Málið er fyrir dómstólunum og þeir munu komast að þeirri niðurstöðu sem verður leiðbeinandi fyrir okkur eins og aðra í þjóðfélaginu. Ef menn telja nauðsynlegt að breyta íslenskum lögum í tilefni af þessu máli þá er sjálfsagt að huga að því og það geta fleiri en dómsmálaráðherra hugað að því.

Hins vegar varðandi Lugano-samninginn þá liggja skýringar og túlkanir á honum fyrir og voru lagðar fram í þinginu þegar þingið samþykkti fullgildingu hans, mjög ítarlegar leiðbeiningar um hvernig bæri að túlka þann samning. Þær túlkanir er hægt að nálgast á vefsíðu dómsmálaráðuneytisins og kynna sér en hugsanleg niðurstaða í málinu getur verið leiðbeinandi fyrir okkur um það hvernig samningurinn er túlkaður. Ég tel að málið sem er tilefni fyrirspurnarinnar sé fyrir dómstólum og því beri að ljúka fyrir dómstólum og síðan verði að taka mið af því ef þeir telja nauðsynlegt að breyta lögum í ljósi þess dóms sem fellur.