Ummæli dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni

Þriðjudaginn 11. október 2005, kl. 13:42:25 (333)


132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Ummæli dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni.

[13:42]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Enn heldur áfram þessi hringavitleysa og klúður ákæruvaldsins í Baugsmálinu en hæstaréttardómurinn er að sjálfsögðu alvarlegur áfellisdómur eftir þriggja ára rannsókn ríkislögreglustjóraembættisins. Lagaprófessorar segja að þeir hafi aldrei lesið jafnharða gagnrýni Hæstaréttar á ákæruvald í nokkru máli og að sjálfsögðu eiga menn að sæta ábyrgð vegna þessa.

En hver eru síðan viðbrögð hæstv. dómsmálaráðherra? Hæstv. ráðherra er yfirmaður þessara manna, en í staðinn fyrir að fara yfir hvað fór úrskeiðis og leyfa ákæruvaldinu að taka sjálfstæða ákvörðun um framhaldið gefur hann út skilaboð um hvað ákæruvaldinu ber að gera sama dag og dómurinn fellur. Það þarf engan snilling til að sjá hvað felst í þessum orðum hæstv. dómsmálaráðherra: „Réttarkerfið hefur ekki sagt sitt síðasta orð í málinu.“ Hér er verið að koma mjög skýrum skilaboðum til ákæruvaldsins um að því beri að halda þessu máli áfram og annað er bara hártogun. Íslendingar eru engir bjánar og það sér hver maður hvað liggur hér að baki.

Afskiptum stjórnmálamanna Sjálfstæðisflokksins af þessu máli verður að linna en við vitum auðvitað hvernig aðdragandi þessa máls var. En núna hefur hv. stjórnarþingmaður og þingmaður Framsóknarflokksins sagt að þessi ummæli ráðherrans verði ekki misskilin og honum finnist að Framsóknarflokkurinn ætti ekki að bera ábyrgð á slíkum ráðherra. Hann segir að í ummælum hæstv. ráðherra sé ljóst að ráðherra vilji að málið haldi áfram og hann sé að leggja línur um það og ekki sé við hæfi að dómsmálaráðherra gefi slíka línu út gagnvart embætti sínu, það eigi að starfa óháð afskiptum ráðherrans. Og það sem meira er, hv. stjórnarþingmaður segir að þetta séu ummæli sem ráðherra beri að draga til baka.

Frú forseti. Ástæða er til að kalla eftir viðbrögðum frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins. Eru þeir sammála samþingmanni sínum, hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni? Telja þeir að Framsókn eigi ekki að bera ábyrgð á þessum ráðherra? Hvað segir formaður Framsóknarflokksins, sem var hérna í salnum í upphafi umræðunnar en virðist hafa farið? Hvað segir hv. varaformaður Framsóknarflokksins? Hvað segir þingflokksformaður Framsóknarflokksins? Eru þeir sammála því að Framsóknarflokkurinn eigi ekki að bera ábyrgð á þessum ráðherra?