Starfsumhverfi dagmæðra

Miðvikudaginn 12. október 2005, kl. 13:45:03 (425)


132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Starfsumhverfi dagmæðra.

96. mál
[13:45]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hvað varðar leiðbeiningar til sveitarfélaganna um niðurgreiðslu vegna daggæslu barna í heimahúsum þá er mér ekki kunnugt um að sveitarfélögin hafi leitað til félagsmálaráðuneytisins um að útbúa slíkar leiðbeiningar um niðurgreiðslur vegna dagforeldra frá því að reglugerðin tók gildi árið 1992. Hlutverk félagsmálaráðuneytisins varðandi dagforeldra lýtur fyrst og fremst að aðbúnaði barnanna en ekki fjárhagslegum hliðum daggæslunnar og það verður að hafa í huga að sömu ákvæði gilda ekki um dagforeldra og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Um skyldur sveitarfélaganna til þess að veita fjárhagsaðstoð gilda almenn ákvæði laga um félagsþjónustu. Í þeim lögum er ekki kveðið á um skyldur sveitarfélaga til að veita þjónustu dagforeldra. Skyldur sveitarfélaganna lúta að leyfisveitingum samkvæmt lögunum og aðbúnaði barnanna sem og umsjón og eftirliti með starfsemi dagforeldra samkvæmt reglugerð.

Hæstv. forseti. Ég er hins vegar alveg tilbúinn til að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að útbúa slíkar leiðbeiningar um niðurgreiðslu ef sveitarfélögin leita eftir því. Það sama kæmi þá til með að gilda um það sem nefnt var hér á undan um leiðbeiningar um fjárhagsaðstoð. Þær eru einungis lagðar fram sem hjálpartæki fyrir sveitarstjórnirnar sem hafa þær til hliðsjónar ef þær kjósa.

Ég vil hins vegar, hæstv. forseti, hnykkja sérstaklega á því sem ég fjallaði um í fyrra svari mínu, þ.e. nýja reglugerð um starfsemi dagforeldra og aðbúnað barna sem ég tel að sé mikil bót fyrir börnin og foreldra þeirra og dagmæður sömuleiðis enda er full sátt um hana í þeim hópi sem um hana fjallaði og dagforeldrar áttu ríkan þátt í.