Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika

Mánudaginn 17. október 2005, kl. 15:43:00 (581)


132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á mér eina ósk: Að sem flestir heyri þessa umræðu, heyri talsmann Sjálfstæðisflokksins tala og meti svo málflutning okkar og það sem við höfum haft fram að færa. Við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði höfum varað við því hvert stefndi í allt sumar og allt haust. Nú er staðan sú að efnahagssérfræðingar, hagfræðingar hjá greiningardeildum bankanna og aðilar sem eru óháðir ríkisstjórn og stjórnvöldum, taka undir með okkur og við höfum að sjálfsögðu einnig hlustað á ráðleggingar þeirra. Ég er sannfærður um að það er meiri samhljómur með því sem við erum að segja annars vegar og þessum aðilum í þjóðlífinu almennt en kvakinu í hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. — Ég ætlaði ekki að tala svona niðrandi til hans og bið hann afsökunar á því. — En við höfum lagt áherslu á að gengi íslensku krónunnar þurfi að endurspegla íslenskan veruleika, veruleikann í íslensku efnahagslífi, og við höfum bent á að svo sé ekki. Við höfum bent á leiðir til að ná samræmi þar á milli og við höfum einnig rætt um það hve mikilvægt er að verja tiltekna hópa í samfélaginu ef til kaupmáttarskerðingar kemur (EOK: Þeir eru varðir.) hjá íslensku þjóðinni almennt. Þeir eru varðir, segir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Við ræddum það núna í síðustu viku hvernig ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafa haft kjörin af öryrkjum og öldruðum á Íslandi en við skulum fara út í þá umræðu síðar.