Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika

Mánudaginn 17. október 2005, kl. 16:29:26 (593)


132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[16:29]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða tillögur til aðgerða til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Ég tel að þessi umræða sé mjög þörf. Í raun finnst mér sú gagnrýni sem hefur komið fram hjá ýmsum stjórnarliðum á þessar tillögur vera mjög ómakleg. Þegar menn bera á borð málefnalegar tillögur þá saka þeir þá um ákveðinn tvískinnung. Og hverjir eru að segja að tvískinnungur sé í gangi? Hafa ekki formenn stjórnarflokkanna einmitt sýnt mikinn tvískinnung í umræðunni? Því hefur verið haldið fram að mikill stöðugleiki ríki í alla staði þrátt fyrir að neyðaróp berist frá útflutningsgreinum í landinu. Einnig má fara yfir það að það er ákveðinn tvískinnungur að tala um að aðhald sé í ríkisfjárlögum þegar á sama tíma verið er að dreifa Símasilfri vítt og breitt um landið og boða bæði niðurskurð og framkvæmdir á sama tíma. Það gengur ekki upp. Það sem ég hefði viljað sjá og mér finnst vanta í þessa tillögu er að hamra á því að hvetja fólk í landinu til sparnaðar — það er mjög mikilvægt við þessar kringumstæður — og vara fólk við þessum falsvonum og glansraunveruleika ríkisstjórnarinnar um að hér sé mikill stöðugleiki. Það á einmitt að segja fólki að hafa varann á sér og greiða niður skuldir ef það hefur einhvern kost á því. Eini maðurinn kannski sem hefur talað af einhverri hreinskilni um efnahagsmál í stjórnarliðinu er hv. varaformaður fjárlaganefndar. Hann hefur boðað í rauninni verðbólgu á meðan allir aðrir hafa einmitt sagt að hér sé mikill efnahagslegur stöðugleiki og að þessi vandi sé varla nokkuð til að tala um.

Fyrsta tillagan sem er til umræðu er sú að það eigi að gefa út af opinberri hálfu að ekki verði stuðlað að mikilli stóriðju fyrr en í fyrsta lagi eftir árslok 2012. Ég tel að það sé einsýnt að menn fara ekki út í neinar stóriðjuframkvæmdir a.m.k. ekki til ársins 2008. Ég tel að flestir hér inni ættu að geta tekið undir einmitt þessa tillögu þó að þeir séu miklir stóriðjusinnar. Það er mjög skynsamlegt út frá efnahagslegum forsendum að boða einfaldlega ekki neinar stórframkvæmdir eða mikla stóriðju á tímabilinu allt til 2008. Síðan get ég ekki séð að það sé nokkuð athugavert við tillögu um að beina þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að hugað verði vandlega að áhættumati í bankakerfinu. Ég tel það vera vel þess virði að Fjármálaeftirlitið fari yfir þá hluti. Við eigum einmitt að hvetja til þess.

Eins vil ég ræða 5. liðinn um að tryggja eigi aðhald í ríkisfjármálum og slá á þenslu með því að leggja fyrir Alþingi nú í haust tillögur um að fresta eftir atvikum hluta þeirra almennu skattalækkana sem lögfestar hafa verið. Það er nú svo að þessi tillaga er í miklu samræmi við tillögu frá nefnd sem skipuð var af sjávarútvegsráðuneytinu um hágengismálin í landinu. Það má vera að þetta sé skynsamlegt og vonandi tekur ríkisstjórnin það alvarlega að skoða þær leiðir að boða til sparnaðar meðal almennings og draga úr þenslunni og peningamagni í umferð. Það er mjög sérstakt að hlýða á hv. varaformann fjárlaganefndar halda því fram að það sé vandamál hvað miklir peningar séu í umferð og taka síðan þátt í því að samþykkja skattalækkanir sem munu koma enn meiri peningum í umferð. Þetta kemur ekki heim og saman og eiginlega eru engin rök á bak við þetta. Menn verða að færa einhver rök fyrir þessu. Ef mikið peningamagn í umferð er vandamál, hvers vegna á þá að fara með meira af peningum inn í hagkerfið?

Það fer líka fyrir brjóstið á mér að þegar rætt er um aðhald að ríkisfjármálum þá er eins og stjórnarliðar og spyrji alltaf vinstri flokkana og okkur í Frjálslynda flokknum hvar við viljum spara. Það er eins og þeir séu orðnir algerlega hugmyndasnauðir. Þeir eru alltaf fastir í því sama, alltaf að skerða af öryrkjum og aftur og aftur af öryrkjum. Sér í lagi virðast framsóknarmenn hafa það alveg á heilanum að þar megi ná miklu fram, að þar séu greinilega peningarnir í landinu, þ.e. hjá öryrkjunum. Sviknar voru 500 milljónirnar frá samningi sem var handsalaður í Þjóðmenningarhúsinu og síðan er verið að boða í fjárlagafrumvarpinu nú í haust að taka ökutækjastyrk af hreyfihömluðum. Svo virðist sem sjálfstæðismenn viti ekki af þessum tillögum. Það kom fram hér í umræðunni í síðustu viku á fimmtudaginn að tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu aldrei heyrt þessara tillagna framsóknarmanna getið. Þetta er mjög sérstakt að þarna séu einmitt breiðu bökin.

Við í Frjálslynda flokknum viljum tryggja aðhald í ríkisfjármálunum og við höfum ýmsar hugmyndir þar um. Það á ekki endilega að vera að krukka í þá fjárlagaliði sem fyrir eru. Það má skoða það að slá saman stofnunum og skoða ýmislegt í hlutverki ríkisins. Það er t.d. óskiljanlegt með löggæsluna að sitt hvorum megin við Snorrabrautina í Reykjavík eru tvær stofnanir, önnur hefur yfir rúmum milljarði að ráða. En hinum megin við Snorrabrautina er stofnun sem sinnir einnig löggæslu og verkefni þeirra skarast á margvíslegum sviðum. Hún hefur yfir rúmum 2 milljörðum að ráða. Þarna hlýtur að vera hægt að ná fram sparnaði og menn hljóta að fara að skoða það í alvöru

Varðandi lið 6, að efna til víðtæks samstarfs við aðila vinnumarkaðarins, þá tel ég að þetta sé mikilvæg tillaga, þ.e. að skoða hvert þjóðfélagið er að stefna varðandi jöfnuð og ójöfnuð í þjóðfélaginu. Það er ekki nóg með að framsóknarmenn með aðstoð sjálfstæðismanna skerði kjör öryrkja og eldri borgara heldur virðast þeir líka vilja skattleggja þetta fólk í meira mæli en gert hefur verið áður. Ég tel að ef við ætlum að ná fram samstöðu um að taka á efnahagsmálunum í þjóðfélaginu þá ættum við að reyna að ná (Forseti hringir.) fram víðtækri sátt, frú forseti. Ég tel einmitt að þá þurfi að fara yfir jöfnuðinn í samfélaginu.