Úrvinnslugjald

Þriðjudaginn 18. október 2005, kl. 14:23:55 (636)


132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Úrvinnslugjald.

179. mál
[14:23]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um dagblaðapappírinn. Það er skoðun mín að það sé ekki sjálfgefið að dagblaðapappír eigi að fara undir álagningu úrvinnslugjalds, að það sé mál sem menn eigi að skoða í samhengi við heildarfyrirkomulag á þessum málum. Og hvað snertir félagasamtökin eiga þau auðvitað að koma að ákvörðunum á sviði umhverfismála. Ég er ekki að draga fjöður yfir það eða leggjast gegn því á nokkurn hátt. Ég tel það bara sjálfsagt í nútímasamfélagi.

Hins vegar er þarna ekki um ákvarðanatöku að ræða. Það er búið að taka ákvörðun og það er einfaldlega verið að gera framkvæmd hennar eins auðvelda og kostur er. Það tel ég vera meginmálið en ekki nákvæmlega hverjir sátu í verkefnisstjórninni.