Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu

Þriðjudaginn 18. október 2005, kl. 20:12:36 (695)


132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

22. mál
[20:12]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér í þessum þingsal hefur oft verið rætt um vanda sjávarbyggða og vanda fiskvinnslunnar. Ég tel, eins og flestir þeir sem ég hef talað við um málið, að af þessu yrði mikil bylting sem mundi skapa óöryggi hjá fiskvinnslufólki. Það er alveg ljóst.

Ég spyr hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson: Hvað gerðist ef þetta yrði gert með loðnuna líka? Þar eru stórir aðilar bæði með bræðslur og frystingu sem eiga skipin. Ef menn eiga að fara að bjóða í það, þessar bræðslur hafa ekki undan, held ég verð fyrir loðnu til sjómanna mundi lækka töluvert. (Gripið fram í.)

Það er einnig ljóst að þeir sem hafa rekið fiskvinnslu hafa oft rekið hana með tapi. Það er alveg ljóst. En þeir eru líka með gott starfsfólk sem er til í að vinna á álagstímum þegar mestu verðmætin eru, í febrúar og mars, þegar loðnufrystingin er til staðar. Þau fyrirtæki hafa oft bjargað sér á þeim fáu mánuðum í loðnuvinnslunni og greitt niður frystinguna og vinnsluna heima. (Gripið fram í.) Þetta er staðreynd.

Menn þurfa að hugsa um það sem er að gerast heima í héraði. Menn vilja halda fólki í vinnu, halda því góða fólki. Vinnslan er ekki alltaf rekin með hagnaði. Þess vegna þurfum við að vanda okkur við þessa umræðu og það væri vonlaust að mínu mati ef þetta frumvarp ætti að ganga eftir.