Gegnumlýsingartæki fyrir tollgæsluna

Miðvikudaginn 19. október 2005, kl. 14:41:19 (732)


132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Gegnumlýsingartæki fyrir tollgæsluna.

100. mál
[14:41]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að bera upp þessa fyrirspurn til fjármálaráðherra. Ég tel mikilvægt að sú vinna sem hann gat um að færi fram á vegum tollstjórans í Reykjavík gangi eins hratt og hægt er. Margt gott er gert og verið að hækka fjárframlög vegna fíkniefnasmygls. Ég vil geta þess að undir lið 09-262 fóru 21,8 millj. kr. í sérstakt átak. Eins er varið í sérstakt átak 4,6 millj. kr. á lið 03-201 til sýslumannsins í Keflavík.

Ég legg áherslu á að við reynum allt sem við getum til að sporna við innflutningi eiturlyfja. Það er afskaplega brýnt. Að lokum vil ég nefna að gert hefur verið sérstakt átak í að fjölga fíkniefnahundum sem hefur skilað góðum árangri. Það eru ódýr tæki.