Jöfnun flutningskostnaðar

Miðvikudaginn 19. október 2005, kl. 14:52:45 (739)


132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Jöfnun flutningskostnaðar.

107. mál
[14:52]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki til hvers hv. þingmaður var að spyrja því hann svaraði sjálfum sér í ræðunni. Ég ætla engu að síður að fara yfir það hvernig þetta hefur farið fram af hálfu ríkisstjórnar. (Gripið fram í.)

Þannig var að í kjölfar umfjöllunar ríkisstjórnarinnar um flutningskostnað á fundi haustið 2001 skipaði samgönguráðherra starfshóp er skyldi fjalla um almennan flutningskostnað miðað við þarfir atvinnulífsins. Starfshópinn skipuðu fulltrúar samgöngu-, iðnaðar- og fjármálaráðuneytis. Hópnum var m.a. ætlað að gera yfirlit um flutningskostnað fyrirtækja og hvernig hann hefði þróast, fjalla um leiðir til að lækka flutningskostnað og skila tillögum um aðgerðir sem stuðluðu að sem mestri samkeppni og lágum flutningskostnaði á landsbyggðinni.

Skýrsla starfshópsins var kynnt fyrir ríkisstjórn 4. febrúar 2003. Ríkisstjórn fól Byggðastofnun þá að fara yfir skýrslu nefndarinnar og þær tillögur sem þar voru kynntar í tengslum við aðrar aðgerðir í byggðamálum, að meta umfang flutningaatvinnugreina sem talið var að ættu undir högg að sækja staðsetningar sinnar vegna samanber niðurstöðu nefndarinnar og í þriðja lagi að meta hver styrkþörfin gæti verið.

Byggðastofnun skilaði niðurstöðum sínum til iðnaðarráðherra í september árið 2003. Síðan þá hefur iðnaðarráðuneytið kannað leiðir til að lækka flutningskostnað framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni. Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu á grundvelli tillagna Byggðastofnunar að vænlegasta leiðin til þess að jafna aðstöðu þessara fyrirtækja væri að taka upp endurgreiðslur á hluta flutningskostnaðar þeirra. Fjallað var um tillögur þessa efnis á ríkisstjórnarfundi í október 2003 og samþykkt að hugmyndir um framkvæmd endurgreiðslu flutningskostnaðar yrðu útfærðar nánar á næstu mánuðum og kannað hjá Eftirlitsstofnun EFTA hvort slíkt endurgreiðslukerfi stæðist áður en frekari ákvörðun yrði tekin um framhald málsins.

Fulltrúar iðnaðarráðuneytis og Byggðastofnunar áttu í kjölfarið fund með starfsmönnum ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, þar sem farið var yfir helstu skilyrði sem uppfylla þyrfti til að endurgreiðslur stæðust kröfur stofnunarinnar og Byggðastofnunar og Byggðastofnun vann að beiðni iðnaðarráðherra að nánari útfærslu endurgreiðslukerfisins.

Málið var svo á ný til umfjöllunar í ríkisstjórn 9. júlí 2004 og það varð að samkomulagi milli iðnaðarráðherra, samgönguráðherra og fjármálaráðherra að það yrði tekið til nánari umfjöllunar embættismanna þessara ráðuneyta. Til þess að gera langa sögu stutta þá hefur ekki náðst samstaða um framgang málsins milli þessara þriggja ráðuneyta eins og ég upplýsti ríkisstjórn um á fundi í lok ágúst síðastliðinn og þannig stendur málið.