Reykjavíkurflugvöllur

Miðvikudaginn 19. október 2005, kl. 16:00:27 (770)


132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Reykjavíkurflugvöllur.

[16:00]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nú bara gangast við því að þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég hef sett af stað lengi og ég hvet áhugamenn um stjórnmál til að fara í samanburðarrannsóknir á afstöðu þingmanna Samfylkingarinnar á þingi versus borgarfulltrúa í borgarstjórn. Í leiðinni geta þeir líka borið saman afstöðu frjálslyndra, ekki bara á þingi og í borgarstjórn, heldur líka þeirra sem tóku þátt í umræðunni hér. (Gripið fram í.) En formaðurinn benti réttilega á að tillaga og afstaða frjálslyndra í borgarstjórn gengur út á að halda flugvellinum á höfuðborgarsvæðinu en hv. þingmaður Sigurjón Þórðarson sagði að það væri skýr afstaða frjálslyndra að hafa hann þar sem hann væri og flytja flugvöllinn ekki nokkurn skapaðan hlut.

Við sjálfstæðismenn höfum ekki farið í neinar grafgötur með að það er ekki sátt á meðal þingmanna sjálfstæðismanna um þetta mál, það er ekkert leyndarmál. Ég vek athygli á því að ég hef tekið nokkrar snerrurnar við samflokksþingmenn mína hér í sölum Alþingis og haft bara gaman og gott af.

En aðalatriðið í mínum huga er þetta — sem að vísu tókst nú kannski ekkert sérstaklega vel núna — að menn skyldu rífa sig aðeins upp úr skotgröfunum og reyna að ræða þetta málefnalega. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og það að hann er að reyna að fara málefnalega yfir alla þætti málsins og skoða þá eins vel og hægt er miðað við æsingarástandið sem er hér í salnum þegar þetta ber á góma. Þetta er ekkert smámál og þetta er líka framtíðarmál. Hér eigum við ekki að hugsa nokkrar vikur eða mánuði fram í tímann, ekki einu sinni nokkur ár heldur áratugi. Við völdum ekki hvar flugvöllurinn ætti að vera, hvorki í Reykjavík né í Keflavík. Það voru hernaðaryfirvöld í öðrum löndum. Þegar við horfum áratugi fram í tímann er eðlilegt að skoða hvort við þurfum ekki á nýjum millilandaflugvelli að halda, það er ekkert að því. Það að setja hann hér aðeins ofar í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu er enginn glæpur.

Varðandi sjúkraflugið (Forseti hringir.) skal hafa það á hreinu að bráðaflugið fer um þyrlur, (Forseti hringir.) en ekki flugvélar.