Þróun matvælaverðs

Fimmtudaginn 20. október 2005, kl. 11:05:19 (785)


132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Þróun matvælaverðs.

[11:05]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Maður getur spurt sig hvort hér sé samkeppni eða ekki. Það er ágætt að rifja upp samráðið í grænmetinu, sem var kennt við Öskjuhlíðina á sínum tíma, og samráðið í olíuversluninni. Þetta eru nýleg dæmi sem sýna að það hefur verið farið á bak við neytendur.

Í skýrslu sem kom út fyrir stuttu um matvælaverð kom fram að kaupmönnum hefði fækkað og mestöll verslunin væri komin á hendur fárra fyrirtækja. Þrjár stærstu verslunarkeðjurnar voru í árslok 2003 með 80–90% markaðshlutdeild. Það kemur líka fram að lítil og minnkandi samkeppni á matvörumarkaði býður vitaskuld heim hættu á aukinni álagningu. Í skýrslu frá 2001 taldi Samkeppnisstofnun að finna mætti skýr merki um þá þróun árin á undan.

Hvað segir þetta okkur, virðulegur forseti? Það er verið að færa hér ágæt rök fyrir því að það sé fákeppni á matvörumarkaði. Og hvað þýðir það? Geysileg freisting til samráðs. Það er mjög erfitt að sanna verðsamráð, það höfum við séð í gegnum tíðina. Ég spyr mig því: Hvernig getum við tekið á þessu?

Um daginn var ágætt viðtal í sjónvarpinu við hagfræðing, Guðmund Ólafsson, um matarskattinn, virðisaukaskatt á matvælum. Þar færði hann rök fyrir því að ef við lækkum matarskattinn skilar það sér ekki allt til neytandans. Það væri mjög freistandi fyrir verslunarkeðjurnar að taka lækkunina til sín.

Maður spyr: Ef við lækkum matarskattinn, sem ég vil ekki útiloka, alls ekki, eins og hér kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra, erum við þá að hjálpa neytendum eða erum við að hjálpa stóru verslunarkeðjunum? Hver græðir á því?

Það er búið að færa rök fyrir því, sem mér þóttu mjög góð, að svarið væri á þann veg að við værum að hjálpa stóru verslunarkeðjunum. Er það það sem við viljum? Það held ég ekki. Ég held því að það þurfi að skoða matarskattinn mjög vel og það liggur ekki ljóst fyrir að lækkun á honum yrði eins mikið til hagsbóta fyrir neytendur og (Forseti hringir.) við kannski höldum í fyrstu.