Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 20. október 2005, kl. 11:16:56 (790)


132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:16]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Meðflutningsmenn eru hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Pétur H. Blöndal og Gunnar Örlygsson.

Í 1. gr. frumvarpsins segir svo, með leyfi forseta:

„Síðari málsliður 51. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo: Sé þingmaður skipaður ráðherra skal hann víkja úr þingsæti á meðan hann gegnir ráðherradómi og tekur varamaður hans sætið á meðan.“

Frumvarp sama eðlis flutti sú er hér stendur á 123. löggjafarþingi og á síðasta löggjafarþingi.

Í dag má segja að við búum við svokallað ráðherraræði, þ.e. ráðherrarnir hafa meiri völd en eðlilegt getur talist, sérstaklega hér á löggjafarsamkomunni. Íslenskt réttarríki byggist á hugmyndum franskra umbótasinna á 18. öld um greiningu ríkisvaldsins í þrjá þætti, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi þríþætta skipting valds er mörgum kunn af því að hún er kennd í skólum landsins. Hugsunin með slíkri skiptingu var að hver valdhafi um sig takmarkaði vald hinna, en hver hluti ríkisvaldsins fyrir sig átti þó að vera sem sjálfstæðastur. Þó að stjórnarskrá okkar byggist á þessum hugmyndum gerir hún samt ráð fyrir að ráðherrar geti jafnframt verið alþingismenn þannig að þeir séu á sama tíma fulltrúar framkvæmdarvaldsins og fulltrúar löggjafarvaldsins, þeir sitja má segja beggja vegna borðsins. Það er því mín skoðun, virðulegi forseti, að hér sé ekki um að ræða aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds eins og skilningurinn er í 2. gr. stjórnarskrárinnar.

Í nágrannalöndum okkar er þessum málum ekki háttað eins og hér á Íslandi í mörgum tilvikum. Ég vil vekja athygli á því að í Noregi og Svíþjóð verða þingmenn að víkja af þingi á meðan þeir gegna ráðherradómi. Þar er skýr aðskilnaður á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þetta kemur skýrt fram bæði í 9. gr. sænsku stjórnarskrárinnar og 74. gr. norsku stjórnarskrárinnar.

Sumir hafa haldið því fram að embættismannakerfið eða flokkarnir fái meiri völd ef af því verður að ráðherrar geti ekki verið þingmenn. Virðulegur forseti, það er fátt sem bendir til þess. Í Svíþjóð, þar sem þessi regla hefur verið viðhöfð í áratugi, hefur þróunin ekki verið sú að fleiri ráðherrar hafi komið utan frá flokkakerfinu, þ.e. úr embættismannakerfinu, og það hefur heldur ekki styrkt völd flokkanna í að hafa aðskilnað á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Það má einmitt segja að vegna þess hve ráðherraræðið er sterkt á Íslandi stjórna forsvarsmenn flokkanna, sem yfirleitt eru ráðherrarnir, óeðlilega miklu í þingflokkum sínum. Ég hef stundum tekið dæmi af ríkisstjórnum þar sem hlutfallslega margir þingmenn í viðkomandi þingflokki eru ráðherrar, sem eru þá búnir að samþykkja eitthvert frumvarp í ríkisstjórn, taka það síðan inn í sína þingflokka og greiða þar atkvæði, ef til þess kemur, um sömu mál. Þá er auðvitað mjög sterk tilhneiging hjá þeim að reyna að koma málunum meira eða minna óbreyttum í gegnum sína þingflokka. Það eru til dæmi, m.a. frá mínum flokki, þar sem við vorum með helming ráðherra í þingflokki á sama tíma, og það eru líka dæmi frá stjórn Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Þá hafði Alþýðuflokkurinn tíu þingmenn og af þeim tíu þingmönnum voru fimm ráðherrar.

Sagt er að stærsti hluti hinnar eiginlegu vinnu í þinginu fari fram í þingnefndum og það er rétt. Þar er mikil vinna og sú hefð hefur skapast að ráðherrar eigi ekki sæti í nefndum þingsins. Þetta þýðir að sjötti hluti þingheims, þ.e. ráðherrarnir, er ekki nema að mjög litlu leyti virkur í þingstarfinu. Þetta eru einnig rök fyrir því að stíga það skref sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Það getur líka komið upp erfið staða fyrir þingmenn sem eru ráðherrar en þurfa að fara úr þeim stóli. Ef ekki verður gerð sú breyting sem hér er lögð til þá mundu þeir detta út. Það eru því líka rök sem má benda á varðandi þetta mál.

Nokkrir flokkar hafa ályktað um það að ráðherrar eigi ekki að vera þingmenn á sama tíma. Þar hefur Framsóknarflokkurinn ályktað nokkrum sinnum og er með mjög skýra stefnu og hún var samþykkt á síðasta flokksþingi okkar núna í febrúar 2005. Ég vil líka benda á að Samfylkingin hefur skýra stefnu að þessu leyti. Samfylkingin hefur ályktað um að þingmenn eigi ekki að gegna ráðherradómi á sama tíma þannig að það má segja að nú séu tveir flokkar í hinu íslenska stjórnkerfi eða pólitíska umhverfi sem styðja þessa leið.

Ég vil vekja sérstaka athyli á því að um þessar mundir er nefnd að störfum undir forustu Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra sem er að endurskoða stjórnarskrána og þar eiga pólitísku flokkarnir aðkomu og mér finnst, miðað við það sem maður heyrir, að það sé nú ekki samstaða um allar breytingar sem þar eru til umræðu. En ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að þessa breytingu, að ráðherrar víki af þingi meðan þeir gegna ráðherradómi, styðja tveir flokkar og hafa gert um tíma. Ég tel því mjög eðlilegt að málið verði tekið föstum tökum og vonandi verður það samþykkt í þessari nefnd þannig að einhverjar líkur séu á því að það komi til afgreiðslu á hinu háa Alþingi þegar niðurstaða nefndarinnar lítur dagsins ljós. En ég átta mig á því að ekki eru allir stjórnmálaflokkar sammála þessari leið en bið þá að hafa í huga að við eigum að hafa hér aðgreiningu valds í löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvald og eins og staðan er nú er að mínu mati ekki hægt að segja að um þann aðskilnað sé að ræða.