Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 20. október 2005, kl. 11:30:55 (794)


132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:30]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þingmaðurinn verða að botna málið ef kjósa á framkvæmdarvaldið beinni kosningu. Eiga ráðherrarnir, sem væntanlega væru kosnir beinni kosningu, þá ekki sæti á þinginu af því þeir eru ekki kosnir í almennum þingkosningum? Er meiningin að fækka þingmönnum þar með? Það þarf að botna þessa hugsun. Mér þykir það frekar fjarlægt að kjósa ráðherrana beinni kosningu, ég hef ekki velt því mikið fyrir mér en við fyrstu sýn tel ég að það væri ekki æskilegur kostur þó að ég vilji ekki útiloka hann. En það væri eðlilegt fyrst hv. þingmaður hefur efasemdir um þessa leið, hefur samúð með málinu en efasemdir um það í svo litlu samfélagi, að hann svaraði því til hvað Samfylkingin hefur hugsað sér af því að stefnan er alveg skýr hjá henni. Þeir vilja að ráðherrar víki af þinginu. Hvernig vilja þeir leiðrétta fyrir þeim halla sem þar með skapast? Hv. þingmaður hefur fylgst betur með þeirri umræðu innan Samfylkingarinnar en ég og hefur væntanlega tekið þátt í henni þar og þá heyrt á flokksfélögum sínum hvaða leið Samfylkingin vill fara. Ég bendi líka á það sem eru ákveðin rök með þeim málflutningi sem hv. þingmaður hefur haft hér uppi að stjórnarflokkarnir hafa auðvitað talsverðan styrk aukalega út úr því að setjast í ríkisstjórn. Ráðherrar velja sér aðstoðarmenn sem yfirleitt eru aktífir stjórnmálamenn sem gerast atvinnupólitíkusar þar með. Það er því alveg rétt að við þessa breytingu sem hér er lögð til kæmi halli á stjórnarandstöðuna en ég tel að við eigum að styrkja hana með fjárframlögum á móti.