Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 20. október 2005, kl. 11:35:11 (796)


132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:35]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að upp komi þingmaður frá frjálslyndum af því að ég hef ekki alveg áttað mig á stefnu þeirra gagnvart málinu. Varðandi þá tölu sem hér var nefnd, 200 milljónir, þá hef ég ekki látið reikna þetta út en það getur vel verið að sú tala passi. Það er mjög auðvelt að reikna út hvað 12 þingmenn kosta almennt í útgjöldum. Vegna þess að margir hafa bent á þau rök að með þessari breytingu væri verið að borga 12 þingmönnum kaup sem ekki er gert í dag þá kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að það sé eðlilegt að skoðað verði hvort fækka eigi þingmönnum. Það kemur ekki fram í sjálfu frumvarpinu, bara í greinargerðinni. Og þótt það standi þar hef ég vissar efasemdir um að rétt væri að taka það skref miðað við hve álagið í þingstörfum er mikið nú í hnattrænum heimi. Starfsemi þingsins gagnvart öðrum ríkjum eykst stöðugt. Það tekur ákveðinn kraft frá þingmönnum og væru þeir færri álít ég að við gætum ekki sinnt því starfi, sem ég tel vera mjög mikilvægt. Þó að mörgum finnist gaman að gagnrýna erlend samskipti þá er ég ekki í þeim hópi. Ég tel geysilega mikilvægt fyrir land eins og Ísland að vera mjög virkt í alþjóðasamstarfi, sérstaklega fyrir þingmenn og embættismannakerfið, frjáls félagasamtök og alla sem hafa áhrif á þróun samfélagsins.