Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 20. október 2005, kl. 11:54:16 (803)


132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:54]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég náði nú ekki alveg hvort hv. þingmaður sagði: Já, við erum tækir í ríkisstjórnarsamstarf eða nei, það má ekki slá af ýtrustu kröfum. Mér fannst hann slá svolítið í og úr, sem er kannski mannlegt í þessari stöðu. En þó áttaði ég mig á því að hv. þingmaður sagði, og það réttilega, að í sumum málum er ekki hægt að slá af. Auðvitað er það þannig í pólitík að flokkar standa fyrir ákveðin mál. Vinstri grænir standa fyrir vinstri hugmyndirnar og hægri menn standa fyrir þær hægri og við framsóknarmenn erum í miðjunni.

En mér fannst merkilegt að heyra hvað hv. þingmaður tíndi helst til sem málefni sem vinstri grænir mundu ekki slá af, kæmi til ríkisstjórnarþátttöku þeirra, en það var stóriðjan. Vinstri grænir hafa staðið fyrir því að vera gegn stóriðju á Íslandi og væntanlega mun það þrengja mjög möguleika þeirra til að verða tækir í ríkisstjórnarsamstarf. Ég hef ákveðnar efasemdir um að aðrir stjórnmálaflokkar muni hafa það á stefnuskrá sinni að útiloka alla stóriðju á Íslandi. En eins og hér kom fram væri það málefni sem vinstri grænir mundu ekki slá af, ættu þeir kost á því að fara í ríkisstjórnarsamstarf.