Skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar

Fimmtudaginn 20. október 2005, kl. 14:14:31 (838)


132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.

[14:14]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það hefur óneitanlega mikið gengið á í lögsókninni gegn Baugi og málið klúðrast í höndunum á ríkislögreglustjóra því miður. Ég er sammála hv. málshefjanda að ríkislögreglustjóri eigi að íhuga stöðu sína og jafnvel að segja sig frá embættinu vegna þess að þetta getur einfaldlega rýrt trúverðugleika lögreglunnar í landinu.

En nú stendur til að hæstv. dómsmálaráðherra skipi nýjan saksóknara í lögsókninni á hendur Baugi og ég er á því að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason eigi að segja sig frá málinu. Það leynir sér ekki að hæstv. dómsmálaráðherra hefur mikla óbeit á fyrirtækinu. Það er eins og fyrirtækið hafi tekið við af kommúnismanum sem upphaf alls ills og það er einfaldlega þannig að málsins vegna ætti hæstv. dómsmálaráðherra að segja sig frá málinu.

Það er einnig óumdeilt að Sjálfstæðisflokkurinn hratt málinu af stað. Fyrrum formaður flokksins, Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri flokksins voru í miklum samskiptum við aðalhvatamann þessarar rannsóknar og áttu í tölvusamskiptum, fundarhöldum og ég vil bara spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Tók hann þátt í leiknum? Var hann í tölvusamskiptum við þennan hvatamann að rannsókninni?

Það eru áhöld um hæfi annarra ráðherra í þessu máli og það verður að segjast eins og er að ég tel að sjálfstæðismenn ættu að segja sig í heilu lagi frá málinu og láta einfaldlega hæstv. forsætisráðherra taka við þessu. Hann hefur lýst því yfir að hann beri fulla ábyrgð á hæstv. dómsmálaráðherra og það fer mjög vel á því að hann taki málið að sér. Því af orðum hans má trúa að hann sé skotheldur hvað varðar vanhæfi í öllum málum, meira að segja hvað varðar mál þegar hann stendur í að selja fjölskyldufyrirtækjum eignir ríkisins.