Skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar

Fimmtudaginn 20. október 2005, kl. 14:19:05 (840)


132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.

[14:19]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hér eru stór mál til umfjöllunar, það er ekkert minna en það að menn vilja taka allt ákæruvaldið til endurskoðunar í tilefni af einstökum dómsmálum sem eru til meðferðar hjá dómstólum og ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér þykir tilefnið svona heldur léttvægt til þessara stóru spurninga sem hér eru bornar uppi.

Í fyrsta lagi veltir maður því fyrir sér hvort það er í sjálfu sér eðlilegt að menn séu í tilefni af einstökum dómsmálum að fella dóma á borð við þá sem hér hafa fallið í ræðustóli í dag, á borð við þá að ríkislögreglustjóraembættið hafi beðið faglegt skipbrot og fleiri slíka dóma. Ég held jafnframt að það sé afar takmarkaður tími í utandagskrárumræðu til að leiða svona mál til lykta en það sem kannski skiptir meira máli og er nær okkur í tíma er það sem snýr að hæfinu. Ég hef ekki hér úr ræðustól heyrt nein fagleg rök fyrir því sem menn hafa haldið fram um að dómsmálaráðherra sé vanhæfur til þess að skipa saksóknara í þessu máli. Hvar eru faglegu rökin? Hér koma menn eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og hann langar greinilega til að segja að dómsmálaráðherra sé vanhæfur, hann langar til að segja það vegna þess að hann segir að það eigi að fara varlega og það sé ekki sjálfgefið að hann eigi að víkja sæti en það sé óheppilegt að hann skipi sætið og að væntanlega verði saksóknari í erfiðri stöðu. Hann langar til þess að segja að ráðherrann sé vanhæfur. Hér er verið að sá einhverjum fræjum sem eiga að koma dómsmálaráðherra illa og það er algerlega ólíðandi að menn noti þennan vettvang til að blanda sér inn í atburðarás sem er í lögmætum farvegi. Það er engin ástæða til að efast um hæfi ráðherrans til að taka ákvörðun í þessu máli á faglegum forsendum og hann hefur reyndar nú þegar fært fyrir því rök að hann sé til þess hæfur.