Starfsmannaleigur

Fimmtudaginn 03. nóvember 2005, kl. 10:33:13 (896)


132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

[10:33]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með því hvernig Ísland hefur orðið að gróðrarstíu fyrir ófyrirleitnar starfsmannaleigur. Það hefur ekki síður verið dapurlegt að fylgjast með því að stjórnvöld hafa tæpast lyft litla fingri til að hefta óprúttna starfsemi manna sem hafa orðið uppvísir að því sem varla er hægt að kalla annað en hreina villimennsku. Ég kalla það villimennsku þegar mannréttindi eru brotin á fátæku erlendu verkafólki. Ég kalla það villimennsku þegar vinnuafl fólks frá atvinnuleysislöndum er selt á verði sem er stundum langt undir umsömdum taxta. Ég kalla það villimennsku þegar útlendir verkamenn eru látnir búa við aðstæður sem við Íslendingar mundum stundum segja að væru varla hundum bjóðandi. Og ég kalla það líka villimennsku þegar veikindaréttur og orlof er ekki virt og þegar menn komast upp með að gjalda keisaranum ekki það sem keisarans er. Ég kalla það meðvirkni af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar hún rær undir með aðgerðaleysi sínu.

Frú forseti. Ég vil þó ekki draga hæstv. ríkisstjórn til ábyrgðar fyrir það ljótasta sem fjölmiðlar hafa upplýst af starfsemi þessara sjóræningja nútímans þegar eitt af þessum fyrirtækjum varð uppvíst að því að hvetja yfirmenn sína beinlínis til að berja pólska verkamenn. Ég segi það fullum fetum, frú forseti, að það eru glæpafyrirtæki sem haga sér svona og glæpafyrirtæki skulu þau heita.

En jafnvel þótt yfirmenn slíkra fyrirtækja yrðu uppvísir að því fyrir dómi að hvetja til ofbeldis af þessum toga dreg ég í efa að hægt væri að loka starfsemi þessara fyrirtækja. Ástæðan er sú að ekki eru til nein lög um starfsemi starfsmannaleigna og á því ber hæstv. ráðherra töluvert mikla ábyrgð. Hann vísar jafnan til nefndar sem situr núna að störfum við að smíða frumvarp um starfsmannaleigur og þar situr fulltrúi hans, fulltrúi ASÍ og atvinnurekenda. En hæstv. ráðherra hefur í reynd sett atvinnurekendum sjálfdæmi um niðurstöðuna. Hann lýsti því sjálfur á ársfundi atvinnurekenda um daginn að hann liti á hlutverk fulltrúa síns sem sáttasemjara. Atvinnurekendur þurfa því ekkert annað en móast gegn réttmætum tillögum verkalýðshreyfingarinnar og meðan fulltrúi ráðuneytisins skiptir í hlutlausa gírinn verður auðvitað ekkert frumvarp til. Það er þess vegna, frú forseti, sem nefndin hefur setið að störfum árangurslaust í meira en ár og það er enn ekki orðið til neitt frumvarp. Ég segi hiklaust: Þessi staða er á ábyrgð hæstv. ráðherra.

Hver er þá ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hefur látið þetta sleifarlag viðgangast? Ég tel að hún sé sú að í augum ríkisstjórnarinnar séu starfsmannaleigurnar ekkert annað en hentug aðferð til að útvega skítódýrt vinnuafl til þess að vinna gegn þenslunni. Ég tel að ríkisstjórnin líti á starfsmannaleigurnar sem hagstjórnartæki til þess að sporna gegn verðbólgu.

Ég er hins vegar viss um að það er fyrir löngu komin brýn þörf á að setja lög um starfsmannaleigur. Lögin þurfa að tryggja að þeim sé skylt að hafa starfsleyfi svo hægt sé að útiloka þær sem verða uppvísar að því að brjóta samninga og réttindi á verkamönnum og jafnvel hvetja til þess að þeir séu lamdir. Þau verða að banna að starfsmannaleigur geti hýrudregið verkafólk með því að draga af þeim hluta launanna sem þjónustugjald og lögin verða að tryggja að starfsmannaleigur útvegi einungis vinnuafl til tímabundinna verkefna en ella gildi fast hefðbundið ráðningarsamband milli notenda fyrirtækis og hinn erlenda starfsmanns. Lögin þurfa að tryggja að haft sé eftirlit með aðbúnaði starfsmanna og þau þurfa líka að stoppa upp í glufur sem varða ýmis réttindi eins og þau sem tengjast uppsagnarfresti og veikindum. Og það verður að tryggja að trúnaðarmenn geti fengið upplýsingar um launagreiðslur. Annars tel ég ekki hægt að koma í veg fyrir að verkamönnum sem koma hingað mállausir og tengslalausir til skammrar dvalar og hafa enga möguleika á því að sækja rétt sinn sé greitt langt undir taxta.

Frú forseti. Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir að þau atriði sem ég taldi upp verði sett í lög? Ég spyr hann líka: Ef ekki næst samstaða á allra næstu vikum í nefndinni, mun hann þá eigi að síður leggja fram sitt eigið frumvarp og hvenær má vænta þess að hið háa Alþingi fái að taka það til umræðu?