Starfsmannaleigur

Fimmtudaginn 03. nóvember 2005, kl. 10:53:52 (903)


132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

[10:53]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Menn mega ekki ræða þetta mál eins og þetta sé eitthvert einangrað vandamál. Hvenær brast þessi stífla? Hún brast þegar ríkisstjórnin hrinti af stað framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun. Þá fyrst brast sú stífla, þær varnir sem við höfðum reynt að halda uppi fram að þeim tíma. Það er því stefna ríkisstjórnarinnar í þeim málum sem gerði það að verkum að stíflan brast og nú erum við stödd í því feni sem raun ber vitni og hv. alþingismenn hafa lýst hér.

Við verðum að viðurkenna að þetta er afleiðing af hnattvæðingu á forsendum gráðugra stórfyrirtækja, stórfyrirtækja sem við höfum boðið hingað inn á gafl til okkar. Við skulum því horfa á þetta í hinu stóra samhengi. Framsóknarmenn sem koma í pontu og ræða um það að við verðum að fara að grípa eitthvað inn í áttu að taka ákvarðanir um Kárahnjúkavirkjun með opin augu en ekki bundið fyrir þau.

Það getur vel verið að mönnum finnist það fyndið þegar bent er á það stóra samhengi. En það er skömm að því sem er að gerast í þessum málum og það er skömm að því að framsóknarmenn skuli ekki geta opnað augu sín fyrir samhenginu og hinni stóru mynd.

Sú tregða er líka ótrúleg sem hefur gilt bæði hjá stjórnvöldum og ekki síður hjá lögregluyfirvöldum í þessum málum. Við höfum hlustað á ábendingar Samiðnar, á ábendingar aðaltrúnaðarmanns á virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka síðan 2003. Hversu oft hafa þeir félagar Þorbjörn Guðmundsson og Oddur Friðriksson ekki komið í fréttir með ótrúlega alvarlegar ábendingar og hefði átt að vera hægur vandinn að fá lögreglu til að koma og gaumgæfa það. Svo þegar nokkrir mótmælendur mættu á Kárahnjúkasvæðið með spreybrúsa var víkingasveitin send á svæðið. Hvaða forgangsröðun er þetta?

Ríkisstjórnin verður að átta sig á því að þetta er veruleiki sem þarf að taka á með róttækum hætti og ég held að forsendan fyrir því að uppræta (Forseti hringir.) þetta í landinu sé sú að horfast í augu við stóra vandamálið og ábyrgð ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.