Aflaheimildir frá Vestfjörðum

Fimmtudaginn 03. nóvember 2005, kl. 14:26:18 (940)


132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aflaheimildir frá Vestfjörðum.

[14:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er ekki aðeins að fiskveiðiheimildirnar hafi verið gerðar framseljanlegar að fullu og þar af leiðandi réttindi íbúanna á Vestfjörðum og í sjávarbyggðunum vítt og breitt um landið verið fyrir borð borin heldur er sú staða í efnahagsmálum þjóðarinnar að einnig af þeim ástæðum er fiskveiðum og fiskvinnslu á þessum stöðum nú ógnað.

Við þingmenn Norðvesturkjördæmis erum nýkomnir úr ferð um svæðið og hittum sveitarstjórnarmenn og fulltrúa atvinnulífsins á þessum stöðum. Það er svo greinilegt að sú hágengisstefna sem rekin er af hálfu ríkisstjórnarinnar — dollarinn kominn niður fyrir 60 kr. og gengisvísitalan snertir 100 en þyrfti að vera a.m.k. 125 til þess að einhver samkeppnisgrundvöllur væri — gengur ekki gagnvart útflutningsgreinunum. Ég held að ríkisstjórnin verði að fara að svara því hvort hún ætli að keyra þessa stefnu áfram með þeim afleiðingum sem það hefur, að rústa grundvallarútflutningsatvinnugreinum þjóðarinnar. Ef svo er þá er hún virkilega orðin óheillaríkisstjórn.

Ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar geta líka verið af því góða sagði iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins við Vestfirðinga, þegar verið var að segja þeim tugum ef ekki hundruðum saman upp og loka fiskvinnslunum þeirra. Það voru kveðjur Framsóknarflokksins til Vestfirðinga.

Frú forseti. Það sem er að gerast gagnvart útflutningsatvinnugreinunum vítt og breitt um landið er alvörumál ef þessi efnahagsstefna, þessi gengisstefna á að ganga fram.