Aflaheimildir frá Vestfjörðum

Fimmtudaginn 03. nóvember 2005, kl. 14:33:07 (943)


132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aflaheimildir frá Vestfjörðum.

[14:33]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að málshefjanda líki það ekki þegar reynt er að varpa ljósi á alla myndina. Það getur vel verið að honum finnist að menn eigi ekki að reyna að skoða hlutina í heild sinni eða í samhengi en það verður þá bara að hafa það. Ég vil hins vegar reyna að skoða þessa hluti í samhengi.

Hv. þingmaður hefur talað mjög mikið um dagabátana og þegar það kerfi var lagt niður. Það er eins og hv. þingmaður telji að ekkert hafi komið í staðinn. Veit hv. þingmaður t.d. ekki að veiðiréttur smábátanna, dagabátanna, var tryggður þannig að þeir fengu mjög miklar aflaheimildir? Ég hef helst orðið var við það upp á síðkastið að við höfum verið (Gripið fram í.) gagnrýndir fyrir að of miklar aflaheimildir hafi verið látnar til dagabátanna í staðinn (Gripið fram í.) fyrir dagana sem þeir misstu. Hv. þingmaður ætti að taka eftir því, og það er auðvitað algerlega rangt hjá honum.

Ég vek athygli á því varðandi dagabátana sérstaklega að þegar greidd voru atkvæði um þessa löggjöf var hún samþykkt. Menn sátu hjá og einungis fjórir voru á móti þannig að það er ekki eins og að hér hafi verið bullandi andstaða við þessar breytingar. Það var ekki þannig. Það voru fjórir menn á móti, aðrir sátu hjá eða greiddu þessu atkvæði og síðan var málið samþykkt. Það er auðvitað ljóst mál að dagabátarnir fengu síðan í sínar hendur heilmiklar aflaheimildir sem þeir hafa nýtt með ýmsum hætti.

Þróunin er mismunandi milli verstöðva. Það sjáum við m.a. á Vestfjörðum. En hitt blasir líka við, eins og við nefndum áðan, að aflamarksbátarnir á Vestfjörðum hafa styrkt stöðu sína. Það þarf ekki annað en að skoða t.d. þróunina varðandi þorskinn á Vestfjörðum, þá blasir þetta við. Vestfirðingar hafa verið að styrkja stöðu sína að þessu leytinu í aflamarkskerfinu vegna þess að smábátakerfið hefur gefið þeim forsendur og möguleika til þess að byggja sig upp í stærri útgerðum. Við töldum það alltaf, og höfum alltaf talið, að það væri gott að menn gætu gert út stærri og öflugri báta. Sú hefur verið þróunin í íslenskum sjávarútvegi. En nú gerist það allt í einu að hér er upp sprottinn flokkur sem greinilega er á móti því að menn geti byggt sig upp og komist á stærri báta, er á móti því, hefur sérstaklega lagt sig fram um að tala gegn því þegar þessi þróun blasir við.