Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins

Fimmtudaginn 03. nóvember 2005, kl. 18:13:06 (999)


132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[18:13]
Hlusta

Flm. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Þar sem ég er síðastur á mælendaskrá í þessari umræðu og var jafnframt sá fyrsti, sá þingmaður sem mælti fyrir þingsályktunartillögunni, vil ég hefja mál mitt á því að þakka fyrir að mörgu leyti ágæta umræðu sem farið hefur fram þar sem margt býsna athyglisvert hefur komið í ljós. Ég held að öllum þeim sem fylgst hafa með sé ljóst að það er langt frá því að umræðu um sjávarútvegsmál eða fiskveiðistjórn sé lokið á Alþingi. Þetta mál á eftir að halda áfram lengi enn, enda langt í land með að hér náist einhver viðunandi lending í þessum málum. Það er einfaldlega það mikið að á ýmsum sviðum sem tengist þessu að það hlýtur að vera á ábyrgð okkar sem höfum verið kosin á þing að ræða einmitt þessi mál og reyna að taka þau föstum tökum. Ég verð þó, virðulegi forseti, að lýsa miklum vonbrigðum með að í umræðunni síðdegis í dag hefur ekki tekið þátt einn einasti stjórnarþingmaður, ekki einn einasti.

Hér sást reyndar aðeins glitta í hæstv. fjármálaráðherra, fyrrv. hæstv. sjávarútvegsráðherra, hv. þingmann Árna Mathiesen, en hann lét sig hverfa um leið og hann sá að við höfðum tekið eftir því að hann væri hér. Hér voru aðrir þingmenn um það leyti sem við hófum þessa umræðu, stjórnarþingmenn, en þeir létu sig líka hverfa. Þetta eru að mínu viti mjög mikil vonbrigði. Formaður sjávarútvegsnefndar, hv. þingmaður Guðjón Hjörleifsson, er nýkominn hingað og situr í hliðarsal en það er ekki að sjá að hann ætli að taka þátt í þessari umræðu heldur.

Það hefði þó verið mikill fengur að því og mikill mannsbragur ef hann hefði nú komið hér í ræðustól og látið í ljósi skoðun sína á þessum málum skýrt og skorinort. Því miður er ekki að sjá að það sé neitt slíkt snið á honum.

Ég hef verið að hugsa um það, virðulegur forseti, á meðan þessi umræða fór fram að hérna sjáum við kannski kristallast viljann til sátta um þessi mál, hinn raunverulega vilja til sátta um þessi mál. Hann er því miður enginn hjá þeim sem aðhyllist núverandi fyrirkomulag. Skiptir þá engu máli hvort um er að ræða stjórnarþingmenn, ráðherra, eða hagsmunaaðila sem hafa tögl og hagldir í sjávarútveginum. Ég tel að þetta sé skýrt dæmi um það. Hvað er það sem vakir fyrir okkur stjórnarandstöðuþingmönnum þegar við berum fram þingmál sem varðar umbætur í sjávarútvegsmálum hér á landi? Við vitum vel að við erum hér í minni hluta. Við vitum það fyrir fram að mál okkar munu með nánast 100% líkum fara inn í sjávarútvegsnefnd, það verða send út erindi, það verður beðið um umsagnir, þetta verður kannski eitthvað rætt, kannski koma einhverjir gestir, en mjög sennilega verða þessi mál svæfð í sjávarútvegsnefnd, þau koma ekki aftur út úr nefndinni til 2. umr. hér í þinginu, fá í raun og veru enga þinglega meðferð. Eina tækifærið sem við höfum er að leggja þessi mál fram hér, mæla fyrir þeim, vonast til að einhver vitræn umræða skapist um þau, að það komi fram ólík sjónarmið frá hinum ýmsu þingflokkum og þingmönnum þannig að í ljósi þeirra umræðna getum við kannski farið að gera okkur einhverja grein fyrir því: Eru hér einhverjir snertifletir sem geta gefið okkur vonir um að hægt sé að ná einhverri lendingu í þessum erfiðu málum?

En hvað gerist svo? Jú, það sem gerist er það að hérna setur stjórnarandstaðan á málþing um þessi mál þar sem koma þingmenn stjórnarandstöðunnar hver á fætur öðrum, flytja ágætar ræður, færa góð rök fyrir máli sínu en stjórnarliðarnir eru stungnir af, þeir sjást ekki. Þetta er nú allur viljinn til sátta.

Það hefur verið talað um það á undanförnum dögum að við í Frjálslynda flokknum séum einhverjir hálfgerðir talíbanar í þessari umræðu, að við viljum engar sættir, við viljum helst efna til ófriðar og hella olíu á ófriðarbál og að við lifum og nærumst á því að það sé sem mestur ófriður um sjávarútveginn á Íslandi. Þetta er alrangt, þetta er algjör fásinna. Við í Frjálslynda flokknum erum að reyna að sýna að við viljum ná einhverri lendingu í þessum málum. Bara núna á þessu þingi, sem er tiltölulega nýhafið, höfum við lagt fram fjögur þingmál um umbætur í sjávarútvegi.

Við erum með þingmál með fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu, sem er stutt af þingmanni Samfylkingar, hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, mál sem við höfum flutt alloft, sem að sjálfsögðu hefur aldrei fengið afgreiðslu.

Við erum með þingmál um að íslenskum ríkisborgurum verði leyft að róa með tvær handfærarúllur hver maður.

Við erum með þingmálið sem við ræðum í dag, að það verði skipuð óháð nefnd til að meta kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins til að reyna að draga inn einhverjar hugmyndir þaðan.

Við erum síðan með þingmál sem gengur út á að hafin verði vinna við það að einhverjar af þeim aukategundum bolfisks sem nú eru í kvóta verði teknar út úr kvóta þannig að fleiri en þeir sem hafa einkarétt að aðgangi að auðlindinni í dag fái möguleika á því að reyna fyrir sér í greininni. Þetta hefur einmitt verið eitt af stóru stríðsmálunum í kringum sjávarútvegsmálin um margra ára skeið, þ.e. skortur á nýliðun í greininni.

Með öllum þessum þingmálum erum við að reyna að rétta fram sáttarhönd, reyna að finna einhverja snertifleti í þessari umræðu til þess að sjá hvort ekki sé hægt að ná einhverri lendingu í þessum málum. En við mætum bara vegg, við mætum bara háum þagnarmúr, þeir vilja ekki við okkur tala. Það er okkar reynsla, það er mín reynsla eftir að hafa verið hér á þingi núna í tvo vetur. Þeir vilja hreinlega ekki tala við okkur. Ef þeir vilja tala um einhverja sátt í þessum málum þá skal sú sátt vera eingöngu á þeirra forsendum. Það eru þeir sem skulu draga upp línurnar um hvernig sú sátt skuli líta út.

Það er náttúrlega ekki von, herra forseti, að hægt sé að ætlast til þess að umræðum miði eitthvað áfram þegar vinnubrögðin eru með þessum hætti, því miður. En ég veit að minn flokkur, Frjálslyndi flokkinn, ætlar að halda áfram. Við erum eins og hobbitarnir í ævintýrinu Hringadróttinssögu, við höldum okkar ferð áfram sama hvað á dynur. Við ætlum að halda áfram að berjast fyrir okkar málstað, að taka upp umræðu hér í þinginu og að leggja fram þingmál í þeirri veiku von að það muni heyrast hljóð handan við múrinn þó að það verði kannski veikt hljóð: Jú, það vill einhver hlusta á okkur, það vill einhver tala við okkur, það vill einhver ræða þessi mál af einhverju viti. Menn eru kannski reiðubúnir til þess að leita einhverra sátta.

En það er með þetta eins og svo margt annað, orð eru til alls fyrst. Það gengur ekki að finna sátt í erfiðum deilumálum ef orðin ganga ávallt í eina átt, frá einum aðila til annars, hinn aðilinn svarar ekki. Ef hann svarar, eins og hér í umræðum fyrr í dag þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra var í utandagskrárumræðu, þá er hreinlega svarað með einhverjum útúrsnúningi og geðvonskulegum skætingi, menn liggja í skotgröfunum og skiptast þaðan á skotum en eru í raun og veru ekki að tala saman af neinu viti. Þetta er mjög slæmt.

Síðan sjáum við að fyrir kosningar eru sett í gang alls konar leikrit til að villa um fyrir kjósendum því að það er nú þannig að það verður að reyna að friða fólkið, því að það er nú það sem ræður þegar öllu er á botninn hvolft eða við skulum a.m.k. vona að svo sé. Að minnsta kosti getur það tekið ákvarðanir með því að greiða atkvæði um það hverjir skuli fá að sitja hér á þingi á næsta kjörtímabili. Og þá komum við að þessum leiksýningum sem eru settar í gang. Allt í einu er látið í veðri vaka að nú sé vilji til þess að ræða málin á einhverjum efnislegum grundvelli og jafnvel finna sættir. Já, það má nú kannski kíkja á þetta og svona lofa ýmsu, hinu og þessu. Þetta sáum við því miður fyrir síðustu alþingiskosningar og maður hefur eftir á verið að gera sér grein fyrir því hvers konar hráskinnsleikur fór þar fram. Kannski varaði maður sig ekki á því, maður var kannski of grænn, nýliði í pólitík og trúði því og treysti að menn meintu eitthvað með því sem þeir sögðu og menn væru tiltölulega heiðarlegir og grandvarir menn. En ég hef á margan hátt orðið fyrir miklum vonbrigðum með marga þingmenn eftir kosningarnar og þá er ég einkum að tala um stjórnarliða.

Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að þessi litla þingsályktunartillaga sem ég hef mælt fyrir hér í dag og liggur nú fyrir þinginu, hefur verið flutt áður, hún var flutt nánast orðrétt nokkrum vikum fyrir alþingiskosningarnar vorið 2003. Þá var hún flutt hér með miklum bravúr og glæsileika af þingmanni Framsóknarflokksins, Hjálmari Árnasyni, nánast orðrétt sama tillaga. Hún fór í gegnum alla kvörnina, í gegnum sjávarútvegsnefnd, var rædd hér í þinginu, það voru greidd atkvæði og ég veit ekki hvað og hvað undir lúðraþyt og fánaburði Framsóknarflokksins og svo var farið í kosningabaráttu og þá var sagt við kjósendur: Ég er búinn að bera fram tillögu á Alþingi um það að eigi að skipa nefnd til að skoða kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Ég er búinn að gera þetta. (Gripið fram í.) Þetta sagði hv. þm. Hjálmar Árnason við kjósendur og ég er hér með grein þar sem þetta stendur orðrétt, eitt af því sem Framsóknarflokkurinn vill gera til að bæta núverandi kerfi. Hvað vildi hann gera án þess að það yrði kollsteypa í sjávarútvegi hér á landi?

Jú, með leyfi forseta:

„Hækka veiðiskyldu upp í 85%. Þeir veiða sem fá úthlutað. Taka upp línuívilnun með landbeitingu. Setja gólf fyrir dagabáta í krókakerfinu. Skoða kosti og galla færeyska kerfisins. Tillaga mín um það var samþykkt á Alþingi í vor. Eftir úttektina getum við svo tekið afstöðu til þess hvort skynsamlegt sé að taka upp kerfið. Banna flottroll á loðnuveiðum vegna hlutverks loðnu í fæðuöflun. Endurskoða fiskveiðiráðgjöfina með aðild fleiri en Hafró.“

Virðulegi forseti. Fólk verður að hafa mig afsakaðan þó að ég skelli upp úr þegar ég les þetta því að þetta var lagt fram hér af þingmanni í fúlustu alvöru fyrir kosningarnar og það var farið með þetta í kosningar. Kjósendur lásu þetta og ég las þetta líka og ég trúði því að manninum væri alvara og þetta væri allt saman satt og rétt.

En ekkert af því sem Framsóknarflokkurinn vildi gera til að bæta núverandi kerfi rétt fyrir kosningarnar árið 2003 hefur komið til framkvæmda, ekki neitt, nema það að taka upp línuívilnunina með landbeitingu, en það var eftir gríðarleg harmkvæli bæði í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Ég heyrði nú síðast í dag hv. þingmann Hjálmar Árnason standa hér í þessum ræðustól og lýsa því yfir að sennilega hefði línuívilnunin verið mikil mistök. Þá vitum við það.

En sú þingsályktunartillaga sem við erum að ræða í dag, varðandi hana þá skrökvaði þingmaðurinn hreinlega að kjósendum. Hann sagði hreinlega ósatt, því að þessi tillaga var aldrei samþykkt sem þingsályktunartillaga frá Alþingi, aldrei. Henni var vísað til ríkisstjórnarinnar, henni var svona lætt út bakdyramegin og svo bara hvarf hún. En það tók enginn eftir því á lokadögum þingsins að tillagan hefði verið afgreidd með þessum hætti. Hér voru allir á fullu við það að afgreiða lagafrumvörp, Alþingi eins og venjulega, forseti á bjöllunni og hamrinum, óðamála við að keyra í gegn atkvæðagreiðslur og enginn tók eftir því hvað gerðist. Það var ekki fyrr en eftir kosningar þegar allt var afstaðið að ég tók eftir þessu. Ég var einhvern tíma að grúska og þá sá ég þetta allt í einu, heyrðu, bíddu nú við, þessi tillaga var aldrei samþykkt. Það var þá sem ég fékk þá hugmynd að best væri að endurflytja þessa þingsályktunartillögu, því að það er ekkert í dag sem hefur breyst frá vorinu 2003 í forsendum varðandi það að samþykkja þessa tillögu núna með meiri hluta Alþingis. Hér eru að stórum hluta til sömu þingmenn og voru þá, þingsályktunartillagan er hin sama. Ég get ekki ímyndað mér annað en að meiri hluti Alþingis í dag muni enn á ný, tveimur árum síðar, samþykkja tillöguna. Hvers vegna ættu þeir ekki að gera það? Þeir gerðu það vorið 2003, það er til skjalfest í gagnabanka Alþingis hverjir greiddu atkvæði og með hvaða hætti. (Gripið fram í: Meiri hluti í sjávarútvegsnefnd er fyrir hendi.) Meiri hluti í sjávarútvegsnefnd er fyrir hendi.

Þrátt fyrir að ég hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með það að menn skuli hafa hlaupið yfir Austurvöll þannig að það sást undir iljarnar á þeim þegar við vorum að ræða þetta mál, þar á meðal hv. þm. Hjálmar Árnason fyrr í dag, þá er ég þó nokkuð bjartsýnn á að þetta mál muni fljúga í gegnum sjávarútvegsnefnd, fá þar þinglega meðferð og afgreiðslu og komi hér aftur til síðari umr. og verði hreinlega afgreitt fyrir jól þannig að nefndin geti byrjað að vinna strax eftir áramót og við fáum skýrslu í hendur hér á Alþingi eigi síðar en 10. desember árið 2006, þ.e. eftir eitt ár, og þá getum við loksins farið að ræða þessa hluti út frá almennilegri úttekt sem gerð hefur verið af Íslendingum á íslensku.