Skil á fjármagnstekjuskatti

Föstudaginn 04. nóvember 2005, kl. 12:31:45 (1034)


132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Skil á fjármagnstekjuskatti.

36. mál
[12:31]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem í ræðustól til að halda örstutta tölu til að lýsa ánægju minni með þessa þingsályktunartillögu og jafnframt undrun yfir því að ríkisstjórnin skuli ekki fyrir löngu hafa farið út í að setja slík lög sem hér er lagt til að verði gert.

Við í þingflokki Frjálslynda flokksins sátum á fundi í gærkvöldi og fórum m.a. yfir þetta mál þegar við vorum að undirbúa okkur fyrir þingfundi dagsins í dag og þar kom fram mjög eindreginn vilji til að lýsa yfir stuðningi við þessa ágætu þingsályktunartillögu. Nóg er nú óréttlætið í þjóðfélaginu þó að ekki bætist við að þeim sem að stórum hluta byggja tekjuöflun sína á því að hala inn tekjur með fjármagnstekjum sé ekki í ofanálag hugsanlega gert kleift að skjóta fjármunum undan skatti. Að sjálfsögðu á hér að vera fullt gegnsæi og það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að bankar og fjármálastofnanir láti skattyfirvöldum í té upplýsingar um bæði fjármagnseign og fjármagnstekjur skattgreiðenda.