Fjölgun og staða öryrkja

Föstudaginn 04. nóvember 2005, kl. 14:26:02 (1054)


132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Fjölgun og staða öryrkja.

[14:26]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í Morgunblaðinu á miðvikudag birtist frétt um að Lífeyrissjóður Suðurlands mundi skerða allar lífeyrisbætur frá sér um 12–16%. Ástæðan sem upp var gefin var lengri lífaldur þjóðarinnar en líka fjölgun öryrkja. Þetta er staða sem lífeyrissjóðir standa almennt frammi fyrir. Iðgjaldið er hækkað um 1% vegna fjölgunar öryrkja sem kostar þjóðina óskaplega mikið.

Ég nefndi áðan að mörkin, þessi stífu 75% mörk, ættu þátt í fjölgun öryrkja en líka atvinnuleysi. Þá er talið að maður sem er atvinnulaus í sex mánuði þurfi að vera mjög sterkur andlega til að þola það og verða ekki öryrki. Þar er því mikilvægt að bregðast strax við. En fjölgun öryrkja er slæm. Hún er slæm fyrir öryrkjana. Það er ekkert gaman að vera öryrki. Hún er slæm fyrir þjóðfélagið, lífeyrissjóðina og skattgreiðendur.

Við þurfum að finna lausnir og ég hef bent á lausnir. Lausnin er sú að taka upp fljótandi örorkumat. Þannig mundi t.d. 62% öryrki fá 62% af fullum örorkulífeyri en mætti hafa 38% af þeim tekjum sem hann hafði áður án skerðingar. Yrði þetta gert yrði kerfið sveigjanlegra og tæki mið af hverjum einasta manni. Það væri hægt að gera þetta mikið hraðvirkara, jafnvel einu sinni í viku fyrir þá sem eru geðfatlaðir því að staða þeirra breytist mjög hratt. Ég legg til að menn skoði þetta mjög alvarlega.

Ég hef borið þetta undir Öryrkjabandalagið í tvígang og hef borið þetta undir Samtök atvinnulífsins í þrígang. Ég vil að menn skoði þetta. Svo þurfa menn endilega að aðgreina tekjutapið og hins vegar þörf fyrir hjálpartæki. Það er tvennt ólíkt. Ef ég missti báða fætur, eins og ég nefndi áðan, yrði ég ekki fyrir tekjutapi heldur þyrfti ég hjólastól. Það má ekki tengja það saman. Ég legg til að menn skoði þetta í alvöru í stað þess að vera alltaf í slagsmálum og með upphrópanir, sem mér finnast einkenna umræðuna allt of mikið. Menn þurfa að hætta ásökunum og fara að vinna sameiginlega að hagsmunum öryrkja.