Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Föstudaginn 04. nóvember 2005, kl. 16:46:33 (1072)


132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

45. mál
[16:46]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra orðaskipta sem fram fóru áðan vil ég fyrst segja að þegar fyrir liggur mælanlegur árangur af því að minnka kynbundinn launamun þá er mikilvægt að viðurkenna þann árangur. Það er ein leið til að ná frekari árangri ef það sem gert hefur verið í þessum málum skilar árangri. En ég geri ráð fyrir því, eins og hér var nefnt, að í því umróti sem verið hefur í þjóðfélaginu hafi bilið vaxið milli láglaunafólks og þeirra sem betur eru launaðir innan borgarkerfisins eins og í þjóðfélaginu öllu.

En ég kem upp, virðulegi forseti, vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni en hann tekur undir með mér að þær viðbótarlaunagreiðslur sem tíðkast hafa um einhvern tíma innan ríkiskerfisins hafi gengið í mun meira mæli til karla en kvenna. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverja skýringu á því af hverju ekki hafi verið settar samræmdar reglur, viðmiðunarreglur um þessar viðbótarlaunagreiðslur sem forstöðumönnum beri að fara eftir, m.a. til að stuðla að því að þær gangi í jöfnum mæli til karla og kvenna og ekki sé verið að brjóta jafnréttislög með þessum greiðslum. Í því sambandi minni ég á að ég hef spurt fjármálaráðherra um þetta og hann hefur rætt um, ef ég skildi hann rétt, að það standi á því að einhver sameiginleg niðurstaða náist milli opinberra starfsmanna og fjármálaráðuneytisins í því efni. Ég spyr því: Hvers vegna tekur þetta svona langan tíma og hefur hv. síðasti ræðumaður, sem er formaður BSRB, einhverjar skýringar á því? Mér finnst óþolandi að það sé svona mikill dráttur á því að fá þetta fram vegna þess að það er alveg ljóst að það er launamisrétti í þessum viðbótargreiðslum.