Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Föstudaginn 04. nóvember 2005, kl. 16:51:05 (1074)


132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

45. mál
[16:51]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staðan hefur verið sú hingað til að Ríkisendurskoðun hefur haldið fram og sagt það í sinni úttekt að þessar viðbótargreiðslur viðgengjust í ríkiskerfinu og forstöðumenn ákveði hvernig þær dreifist milli starfsmanna og milli kynja. Fjármálaráðuneytið hefur ekki viðurkennt að þessar viðbótargreiðslur séu í gangi en þær eru búnar að vera það í mörg ár og vafalaust vegna þess sem hv. þingmaður nefndi, vegna kröfu frá opinberum starfsmönnum um að um þær yrði samið. Hv. þingmaður segir að nú sé búið að semja um þær og ég spyr þá: Megum við þá vænta þess að settar verði einhverjar viðmiðunarreglur fyrir forstöðumenn til að fara eftir? Vegna þess að ég minni á að Ríkisendurskoðun hefur kallað eftir slíkum reglum og hún hefur líka bent á það í skýrslu sinni að brýnt sé að þessar viðmiðunarreglur fyrir forstöðumenn verði settar inn í jafnréttisáætlanir ráðuneyta og stofnana til þess að eftir þeim sé farið. Því er brýnt að þessar samræmdu viðmiðunarreglur séu gefnar út. Mér leikur hugur á að vita hvort hv. þingmaður veit eitthvað um þetta því að ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig hægt sé að fá ráðuneytið til að setja þessar samræmdu reglur.

Ég minni líka á að þegar Jafnréttisstofa fór yfir þessar viðbótargreiðslur þar sem hún taldi að margt benti til að þarna væri um brot á jafnréttislögum að ræða, þá kallaði hún líka eftir því að ráðuneytið setti samræmdar viðmiðunarreglur. Nú þegar hv. þingmaður upplýsir að búið sé að semja um þetta vænti ég þess að búið sé að ná niðurstöðu um það milli opinberra starfsmanna og ráðuneytisins eftir hvaða reglum verði farið við úthlutun á þessum viðbótargreiðslum og þá spyr ég: Verða útgefnar einhverjar sérstakar viðmiðunarreglur í þessu sambandi og mun hv. þingmaður beita sér fyrir að þær verði settar inn í jafnréttisáætlanir ríkisstofnana?