Breytt skipan lögreglumála

Mánudaginn 07. nóvember 2005, kl. 16:06:43 (1109)


132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Breytt skipan lögreglumála.

[16:06]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir fagna því að löggæslumál skuli vera hér til umræðu því að löggæsla er mjög snar þáttur í innviðum samfélags okkar. Eins og fram hefur komið í ræðum manna breytist samfélagið mjög ört tæknilega, samgöngur breytast og íbúamunstrið breytist stöðugt og þjóðfélagið allt er í breytingu. Auðvitað hlýtur skipulag löggæslumála að þurfa að taka mið af því og þar þarf að vera til sveigjanleiki. Ekki verður annað séð en að tillögur framkvæmdanefndar séu einmitt að efla þennan sveigjanleika og efla hina faglegu vinnu lögreglunnar. Því ber að fagna.

Vandinn er auðvitað sá m.a. að við erum lítil þjóð í stóru landi og fjarlægð á milli lögreglustöðva er mikil. Ekki þarf mikið út af að bera til að lögreglustöðvar geti lent í miklum vandræðum og því ber að fagna að menn ætli sér að stækka svæði og efla samráð.

Ég hafði, frú forseti, tvær spurningar til hæstv. dómsmálaráðherra. Önnur lýtur að því hvernig mat sé lagt á þörf fyrir fjölda lögreglumanna á einstökum svæðum, hvort þar sé einungis íbúatala lögð til grundvallar eða tillit tekið til aðstæðna. Ég hef sérstaklega í huga ferðamannastaði eins og á Suðurlandi, í Borgarfirði og í kringum alþjóðaflugvöllinn Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þar sem íbúum fjölgar í rauninni um þúsundir á ferðamannatímanum, hvort tekið sé tillit til þess þegar verið er að leggja mat á þörf fyrir fjölda lögreglumanna.

Hin spurning mín átti svo að lúta að því sem hér hefur komið fram um samráðsferlið og ég verð að vera mjög ósammála síðasta ræðumanni en tek undir það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra og tel það til fyrirmyndar þegar niðurstöður nefndar eru fyrst settar út á netið. Síðan hefst mikil ganga til sveitarstjórnarmanna þar sem á þá verður hlustað og eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra verða ákvarðanir hans byggðar á því samráðsferli (Forseti hringir.) og því ber að fagna.