Breytt skipan lögreglumála

Mánudaginn 07. nóvember 2005, kl. 16:09:00 (1110)


132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Breytt skipan lögreglumála.

[16:09]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt og sjálfsagt að fyrirkomulag og skipan lögreglumála sé til endurskoðunar og ég vil þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka það mál hér til umræðu.

Þjónusta sýslumanns- og lögregluembætta þarf að uppfylla þarfir þeirra sem við hana eiga að búa, þ.e. að íbúum svæðisins finnist öryggi sitt sæmilega tryggt. Víða hagar svo til að slæmar samgöngur koma í veg fyrir samnýtingu á þjónustu löggæslumanna. Svo hagar til á Vestfjörðum að oft eru slæmar og jafnvel engar samgöngur mögulegar milli norður- og suðursvæðis Vestfjarða. Auk þess getur vegna veðurs sem útilokar samgöngur komið upp mjög mikið hættuástand vegna veðurs og úrkomu eins og dæmin sanna því miður. Meðan þannig háttar til er ekki um það að ræða að leggja niður sýslumanns- og lögregluembættið á Patreksfirði. Þegar búið verður að tengja þessi svæði með láglendisvegi um jarðgöng er sjálfsagt að skoða stöðu mála í ljósi bættra samgangna.

Sama má í raun og veru segja um sýslumannsembætti Strandamanna á Hólmavík að þar hindra lélegar samgöngur stóran hluta ársins sameiningu Reykhóla, Hólmavíkur, Búðardals. Og meðan vegur er ekki kominn um Arnkötludal nýtast ekki samlegðaráhrifin af því að tengja þetta svæði saman vegna þess að við þurfum jú fyrst og fremst að huga að íbúunum.

Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að efla starf úti á landsbyggðinni eins og á Blönduósi. Það er sjálfsagt að taka þessi mál til umræðu og ég vonast til að fyrirhugaðir fundir dómsmálaráðherra um þau leiði í ljós að menn séu ekki á móti breytingum en vilji auðvitað hafa vaðið fyrir neðan sig í þeim efnum.