Breytt skipan lögreglumála

Mánudaginn 07. nóvember 2005, kl. 16:13:34 (1112)


132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Breytt skipan lögreglumála.

[16:13]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég er undrandi á því að menn séu að gagnrýna það að ekki hafi verið haft samráð við sveitarfélögin þegar tillögurnar lágu ekki fyrir fyrr en 24. október og nú 7. nóvember er samráðsferlið hafið. Það er ekki hægt að hefja samráð við neina fyrr en tillögur liggja fyrir. Framkvæmdanefndin lagði tillögurnar fram hinn 24. október og á næstu tíu dögum verður gengið þannig til verks að allir sveitarstjórnarmenn í landinu fá tækifæri til að hitta nefndina og fara yfir þessi mál með henni fyrir utan það að geta sent okkur ábendingar á netinu. Mörg hundruð eintök af þessari skýrslu eru farin út á netinu þannig að það er mikill áhugi hjá mönnum að kynna sér málið. Ég hef engar áhyggjur af því hvort fundir eru haldnir á Akureyri eða annars staðar eða að menn hafi ekki tækifæri til að kynna sér það til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Mér finnast það algjör aukaatriði sem menn eru að draga hér fram og einnig þegar verið er að gefa til kynna að í þessum tillögum sé verið að ýta undir það að draga úr öryggi og fara yfir einstaka staði. Ég er þeirrar skoðunar að einyrki í Búðardal þótt góður sé, lögreglumaður, sé mun betur settur sem hluti af stærri liðsheild heldur en einn undir sínum lögreglustjóra. Það eru tillögur þessara lögreglustjóra að þessi þjónusta verði sameinuð í stærri einingar til þess að unnt sé að sinna þessum verkefnum. Um það snýst málið, ekki að draga úr þjónustunni heldur að efla þjónustuna með stærri liðsheild sem m.a. getur komið að gagni, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason nefndi, þegar verið er að takast á við sérstök verkefni á einstökum stöðum. Þá eru fleiri menn til taks innan lögregluumdæmisins sem nýtast til þess að takast á við þau verkefni. Og þegar málið er skoðað án þess að menn séu of bundnir af landafræði, vegagerð eða öðrum slíkum hlutum heldur bara af verkefnum lögreglunnar hljóta þeir að komast að þeirri niðurstöðu að með þessu er verið að styrkja lögregluna og þar með þjónustuna við íbúana.