Vatnalög

Mánudaginn 07. nóvember 2005, kl. 18:46:51 (1146)


132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þakkir til hæstv. forseta varðandi skilning hennar á því að gera þurfi hæstv. umhverfisráðherra viðvart um þá umræðu sem hér fer fram. Ég vonast til að við fáum fréttir af því hvort hæstv. ráðherra er á leið til umræðunnar eða hvort við þurfum að bíða með að fá hana hingað þar til umræðan verður aftur tekin.

En mig langaði til að bæta við það sem ég sagði áðan. Hér erum við að ræða frumvarp til vatnalaga. Það er auðvitað alveg rétt. Ég held því hins vegar fram að hér sé um hálfgerðan bastarð að ræða og þetta frumvarp eigi alls ekki að heita frumvarp til vatnalaga, að þetta snúi ekki að vatnalögum og eigi ekki að teljast til þeirra. Þetta eru ekki vatnalög í eiginlegum skilningi.

Það sem við ættum að ræða hér í frumvarpi frá hæstv. iðnaðarráðherra væru lög um vatnsréttindi. En samhliða slíku frumvarpi ættum við að ræða annað frumvarp, frá hæstv. umhverfisráðherra sem héti lög um vatnsvernd. Það er deginum ljósara og kristallast í þeirri umræðu sem fram hefur farið að það er nauðsynlegt að taka þessi mál saman. Við getum ekki aðskilið þau. Hæstv. umhverfisráðherra segir einatt sjálf að bæði eigi að vera hægt að vernda og nýta. Ég held að ég hafi heyrt hæstv. iðnaðarráðherra segja eitthvað slíkt sömuleiðis.

Við skulum bara bíta í það súra epli og kyngja því að þessa þætti þurfum við að ræða saman, annars vegar frumvarp um vatnsréttindi og hins vegar frumvarp um vatnsvernd. Það er eftir slíkri umræðu sem þingheimur kallar núna.

(Forseti (JóhS): Forseti hefur fengið þær upplýsingar að ráðherra hafi verið gert viðvart. En ráðherra mun ekki ná hingað í hús, þar sem hún er stödd í bænum, miðað við þann tíma sem við höfum til umráða. Einn hv. þingmaður í viðbót hefur kvatt sér hljóðs um fundarstjórn forseta. En þegar umræðum um fundarstjórn forseta er lokið mun forseti fresta umræðunni. En enn eru fjórir á mælendaskrá.)