Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 08. nóvember 2005, kl. 16:53:11 (1194)


132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[16:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, mér er ljúft að leiðrétta það ef menn hafa skilið það þannig að ég væri að væna Frjálslynda flokkinn um að vilja viðhalda þessu kerfi, þá er það nú ekki. Ég efast ekki um vilja þeirra til að breyta þessu. Ég átti hins vegar við að þetta frumvarp væri leið til að opna gat inn í þetta kerfi eins og það er núna og það er kannski ekki svo mikið meira um það að segja.

Það er mikil nauðsyn á því að finna leiðir til þess að gefa fólki tækifæri til að taka þátt í þessari atvinnugrein og fyrirkomulagið sem er í gildi, það verður aldrei of oft sagt að það lokar gjörsamlega fyrir þá möguleika. Þess vegna er gott að menn skuli vekja upp umræðuna með máli af því tagi sem hér er til umræðu.

Ég satt að segja get ekki yfirgefið þá von að þeir sem hafa varið þetta kerfi einna harðast muni að lokum komast til ráðs með það að þetta getur ekki gengið til framtíðar litið, að loka atvinnugrein eins og þessari eins og gert er með þessu fyrirkomulagi.