Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 08. nóvember 2005, kl. 16:56:52 (1196)


132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[16:56]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður lýsti ágætlega þeim byggðavanda sem uppi er vegna núverandi kerfis. Þess vegna, eins og ég sagði áðan, er full ástæða til að menn dragi athyglina að þeim nýliðunarvanda sem er í greininni. Það eru svo sem ekki miklar vísbendingar um að þeir sem hafa stutt kerfið eins og það er núna séu að komast til einhvers ráðs en ég nefndi reyndar í ræðu minni áðan að þeir virðast þó a.m.k. hafa komist að þeirri niðurstöðu að setja ætti þessa þjóðarauðlind í stjórnarskrána sem þjóðareign til framtíðar. Það þýðir að mínu viti ekki annað en það að jafnræði til að nýta auðlindina kemst á, hvernig svo sem menn semja um að koma því á.

Það þarf náttúrlega einhvers konar aðlögun eða fyrningarleið til að það gerist, en þó er hægt að segja að menn verði fá að njóta þess sem þeir hafa sagt og sett fram í stefnu sinni. Ég trúi því að menn meini það sem þeir segja þegar þeir tala um að þetta eigi að vera þjóðarauðlind til framtíðar. Þess vegna bind ég miklar vonir við umfjöllun um þessi atriði í tengslum við stjórnarskrárendurskoðunina. Ég ætla ekki að bæta neinu meira við um það núna en örugglega gefst tækifæri til þess að ræða þau mál þegar líður fram á veturinn.