Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort

Þriðjudaginn 08. nóvember 2005, kl. 18:57:18 (1212)


132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort.

35. mál
[18:57]
Hlusta

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir ræðu hans. Ég kem hér í stutt andsvar vegna orða hans um að maður ætti kannski að beina athyglinni að því hvað gerist þegar svona kort vantar. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni — ég sleppti því úr greinargerð með þessu þingmáli — að afleiðingarnar geta verið misjafnar, eru misjafnar, óljósar og skapa skilyrði fyrir ágreining. Til dæmis kom fram í úrskurði Skipulagsstofnunar á sínum tíma um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar að ekki var í öllum tilvikum ljóst hvaða gögn stofnunin teldi þurfa að liggja fyrir til að unnt væri að meta áhrif framkvæmdarinnar. Af þessu leiðir að það er mjög erfitt fyrir framkvæmdaraðila að meta hvenær nauðsynlegt er að leggja í kostnaðarsamar rannsóknir á svæðum sem ætlunin er að raska og ósamræmi getur orðið í kröfugerðinni.

Þetta er gífurlega nauðsynlegt mál fyrir okkur að vinna að og það er mjög mikilvægt að sömu vinnubrögðum verði beitt og þeim sem grannþjóðirnar nota með góðum árangri. Það má t.d. benda á að Náttúrufræðistofnun hefur lagt grunn að flokkun og skilgreiningu vistgerða á landsvísu. Hún hefur beitt þessum sömu vinnubrögðum við öflun grunngagna fyrir rammaáætlun um virkjun jarðhita og vatnsfalla fyrir mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og við skráningu á náttúrufari miðhálendisins. Þó að flokkun lands í vistgerðir sé lokið að miklu leyti, þessari flokkun á miðhálendinu, er allt láglendið eftir fyrir utan alla kortagerðina sem er svona mikilvæg eins og hér hefur komið fram.