Könnun á fjarsölu og kostun

Miðvikudaginn 09. nóvember 2005, kl. 15:08:34 (1264)


132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Könnun á fjarsölu og kostun.

194. mál
[15:08]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Reykvíkinga, hefur lagt fyrir mig fyrirspurn á þskj. 194 þess efnis hvað líði könnun á fjarsölu og kostun í útvarps- og sjónvarpsstöðvum sem útvarpsréttarnefnd mun hafa látið framkvæma. Jafnframt spyr hv. þingmaður hvort niðurstöður þessarar könnunar liggi fyrir. Eins og ég upplýsti í svari mínu til hv. þingmanns, og hv. þingmaður í rauninni fór ágætlega yfir áðan, í fyrirspurn um þetta efni fyrr á þessu ári í aprílmánuði þá stóð fyrir dyrum af hálfu útvarpsréttarnefndar að gera sérstaka könnun á því hvernig auglýsingum, fjarsölu og kostun helstu sjónvarpsstöðvanna sem starfa með leyfi nefndarinnar væri háttað. Ég tel mikilvægt að þessi könnun verði framkvæmd.

Útvarpsréttarnefnd hefur upplýst mig í tilefni af þessari fyrirspurn hv. þingmanns að nefndin hafi fundað með forsvarsmönnum 365 ljósvakamiðla, Íslenska útvarpsfélagsins hf. og Ríkissjónvarpsins á vormánuðum. Á þeim fundi hafi verið farið ítarlega yfir ákvæði VI. kafla útvarpslaga sem fjallar um auglýsingar, fjarsölu og kostun og gerðu fyrirsvarsmenn þessara sjónvarpsstöðva grein fyrir því hvernig þessum ákvæðum væri fylgt eftir auk þess að fjalla almennt um auglýsingastefnu stöðvanna.

Til að framkvæma athugunina leitaði útvarpsréttarnefnd til fjölmiðlaskorar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Ekki reyndist unnt að framkvæma þessa könnun fyrir sumarið vegna anna hjá þeim sem tóku verkið að sér. En stefnt er að því að niðurstöður í þessari könnun liggi fyrir nú í árslok samkvæmt upplýsingum mínum. Þá verða þær að sjálfsögðu kynntar sjónvarpsstöðvunum og fjallað sérstaklega um þær á vettvangi nefndarinnar með fyrirsvarsmönnum sjónvarpsstöðvanna.